Kærleikskúla og Grýla gamla á boðstólum

,,Við ætlum að vera vel sýnilegar og verðum með þessa fallegu hluti  til sölu á nokkrum stöðum fyrir jólin," segir Yvette Lau, verkefnastjóri fjáröflunarnefndar Soroptimistaklúbbs Austurlands. Klúbburinn hefur aftur tekið að sér að selja Kærleikskúluna og  Grýlu gömlu fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.

krleikskla1.jpg

Að þessu sinni er það Gjörningahópurinn sem er höfundur kærleikskúlunnar, en  Grýla, sem í ár er fulltrúi jólasveinafjölskyldunnar, kemur úr smiðju Katrínar Ólínu Pétursdóttur. Ljóð eftir Hallgrím Helgason fylgir.

Soroptimistakonur verða með sölubás í Samkaup á Egilsstöðum 13.desember eftir hádegi. Einnig mæta þær með vöru sína á  Jólaköttinn, jólamarkað skógarbænda í húsi Barra á Valgerðarstöðum  þann sama dag.

Munirnir verða einnig til sölu í Samkaup á Seyðisfirði og á Borgarfirði sér Katrín húsfreyja á Jökulsá um söluna.

Þetta er þriðja árið í röð  sem klúbbsystur taka að sér slíka sölu fyrir Styrktarfélagið. Þessir fallegu munir hafa verið  á boðstólum fyrir jólin undanfarin fimm  ár og í hvert sinn komið nýir listamenn við sögu. Þeir eru því orðnir  vinsælar og eftirsóttar sem jólagjafir sem margir hafa áhuga á að safna og styrkja gott málefni um leið.

Ágóðinn af sölunni í  2006, sem nam  rúmum100 þúsund krónum, var varið til kaupa á meðferðarbekk  fyrir  sjúkraþjálfunardeildina  á  Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum. Bekkurinn kostaði 200 þúsund krónur og bættu Soroptimistasystur við öðrum 100 þúsundum úr líknarsjóði sínum. Ágóðinn af sölunni í fyrra  var rúmlega 270 þúsund krónur og var hann notaður til kaupa á tækjum til að þjálfa börn, en sjúkraþjálfari sem hefur sérhæft sig í þjálfun fatlaðra barna starfar á Egilsstöðum.

Í ár verður ágóðanum af sölunni aftur varið til að auðga og bæta líf fatlaðra barna og unglinga á Austurlandi, en eitt þúsund krónur af andvirði hvers hlutar ganga til klúbbsins.

gryla.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar