Kuldagjóstur og fannfergi
Veturinn hefur minnt á sig í gær og í dag með kuldagjósti og fannfergi. Á vegum fjórðungsins er víðast hvar snjóþekja eða hálka og skafrenningur. Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar og þungfært víða á fjallvegum. Vegfarendur ættu því að hafa varann á.
Þurft hefur að ryðja götur í þéttbýli og vegi utan þeirra og menn þar í kappi við tímann, þar sem væntanlega bætist talsverður snjór ofan á það sem fyrir er í nótt.
Veðurstofan varar við stormi austan- og suðaustanlands seint í nótt og fram eftir morgundeginum, allt að 25 m/s. Spáð er annars norðan 8-15 m/s, en víða 13-18 m/s á Austfjörðum. Él verða líklega bæði á Norður- og Austurlandi og frost allt að tíu stigum.