Kvíðinn minnkað, sjálftraustið aukist

ardis_hulda_henriksen.jpgÉg byrjaði í Starfsendurhæfingu Austurlands, StarfA, um mánaðarmótin mars/apríl árið 2010. Ég frétti af henni þegar ég var í endurhæfingu á Norðfirði og ég ákvað að prófa þetta. Ég var voðalega lokuð manneskja, rosalega feimin, mjög kvíðin, lítið sjálfstraust og sagði fátt. Var bara svona eins og ég væri föst inni í skel, sem ég komst ekkert útúr.

 

Í dag er komið eitt ár síðan ég byrjaði í starfsendurhæfingunni og ég sé ekki eftir neinu. Í StarfA lærir maður margt og mikið sem er bæði gott fyrir mann andlega og líkamlega. Andlega hliðin mín er mjög góð en ég þarf að styrkja líkamlegu hliðina. Ég er alveg að geta komist útúr skelinni minni sem ég var búin að vera föst í dálítið lengi. Ég er hætt að vera svona rosalega feimin og lokuð eins og ég var fyrst þegar ég byrjaði. Ég er byrjuð að tala meira og tjá mig. Kvíðinn hefur minnkað mikið og er næstum því farinn. Sjálfstraustið hefur aukist mikið og ég er búin að eignast fullt af yndislegum vinkonum og vinum í gegnum StarfA.

Ég get alveg sagt það og verið stolt af því að StarfA hefur hjálpað mér mjög mikið í gegnum mína erfiðleika og hjálpað mér að ná andlegum og líkamlegum styrk. Allt yndislega fólkið sem vinnur þarna hefur líka hjálpað manni mikið.

Eftir að maður frétti að Starfsendurhæfing Austurlands væri að hætta fékk maður eiginlega hnút í magann og skrýtna tilfinningu. Maður veit eiginlega hvað maður á að gera þegar starfsendurhæfingin er hætt. En maður heldur auðvitað áfram að styrkja sjálfa sig. Heldur áfram í hreyfingunni. Heldur áfram að hafa samband við vinkonur sem maður kynntist í starfsendurhæfingunni. Betra að gera það og halda áfram en detta aftur í sama farið. Mér líður miklu betur í dag heldur en fyrir einu ári síðan. Mér finnst ég vera ný manneskja og ég ætla að halda áfram að styrkja mig og vera ennþá sterkari manneskja.

Ég get og ég vil.

Eftir Árdísi Huldu Henriksen, þátttakenda í StarfA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.