Kynferðisleg áreitni er bönnuð á vinnustöðum
Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um kynferðislega áreitni á vinnustað, telur Vinnueftirltið rétt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri um lagalegar skyldur er varða vinnuvernd og aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Ábyrgð atvinnurekenda á vinnuvernd
Lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (hér eftir nefnd vinnuverndarlögin) er ætlað að tryggja starfsfólki öllu öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Þar eru þær skyldur lagðar á atvinnurekendur að þeir tryggi að gætt sé fyllsta öryggis og heilsusamlegs aðbúnaðar á vinnustað. Samkvæmt lögunum ber atvinnurekandi ábyrgð á vinnuvernd á sínum vinnustað. Verkstjóri er skilgreindur sem fulltrúi atvinnurekanda og ber honum eða henni að taka þátt í starfi sem miðar að auknu öryggi og heilsusamlegum aðbúnaði á vinnustað. Stjórnendum er einnig ætlað það hlutverk að stuðla að því að allir á vinnustaðnum viðhafi góða starfshætti sem stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi. Bæði atvinnurkendur og fulltrúar þeirra hafa skyldum að gegna að bregðast við ef öryggi eða heilsu starfsfólks er ógnað með einhverjum hætti. Með vinnuverndalögunum er því leitast við að enginn skaðist vegna vinnu sinnar og að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa hvers kyns vanda sem teflir öryggi eða heilbrigði starfsfólks í hættu.
Aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi
Reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum hefur verið sett á grundvelli vinnuverndarlaganna. Í þeirri reglugerð kemur fram að atvinnurekanda og starfsfólki er óheimilt að leggja annað starfsfólk í einelti, beita ofbeldi eða áreita það kynferðislega eða á grundvelli kyns. Reglugerðin leggur einnig þær skyldur á atvinnurekendur að gera áhættumat og áætlun um forvarnir þar sem meðal annars kemur fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbunda áreitni og ofbeldi á vinnustað. Til að meta áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum þarf að skoða og greina áhættuþætti eins og hegðun á viðkomandi vinnustað hvort sem atvinnurekandi, stjórnendur og/eða aðrir starfsmenn geta átt hlut að máli. Áhættumat skal byggja á öllum tiltækum upplýsingum þar sem meðal annars skal tekið tillit til andlegra og félagslegra þátta í tengslum við vinnuaðstæður á vinnustaðnum, svo sem: a) fjölda starfsmanna, b) aldurs starfsmanna, c) kynjahlutfalls meðal starfsmanna, d) ólíks menningarlegs bakgrunns starfsmanna, e) hugsanlegra örðugleika meðal starfsmanna í tengslum við talað og/eða ritað mál, f) skipulags vinnutíma, g) vinnuálags, h) eðlis starfs/starfa á vinnustaðnum, i) hvar/hvernig vinnan fer fram.
Þá ber atvinnurekanda einnig að tiltaka til hvaða aðgerða skuli gripið ef fram kemur kvörtun, rökstuddur grunur eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi eða hann/hún sjálf(ur) verður var/vör við einhverja slíka háttsemi. Í áætlun um aðgerðir þarf m.a. að koma fram a) með hvaða hætti eigi að meta aðstæður í því skyni að greina hvort einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eigi sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustaðnum, b) til hvaða aðgerða skuli gripið hvort sem mat á aðstæðum leiðir í ljós rökstuddan grun um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eigi sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustaðnum eða ekki, c) til hvaða aðgerða skuli gripið lúti kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi að samskiptum starfsmanns eða starfsmanna við einstakling eða einstaklinga sem ekki teljast til starfsmanna vinnustaðarins en samskiptin eiga sér stað í tengslum við þá starfsemi sem fram fer á vinnustaðnum, d) hvernig vinnuaðstæðum á vinnustað skuli háttað meðan á meðferð máls stendur, e) hvernig haga skuli upplýsingagjöf innan vinnustaðarins meðan á meðferð máls stendur, þ.m.t. til hlutaðeigandi starfsmanna og vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, f) hvernig atvinnurekandi upplýsi innan vinnustaðarins, þ.m.t. til hlutaðeigandi starfsmanna og vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, um að hann líti svo á að máli sé lokið af hans hálfu, g) hvernig fara skuli með upplýsingar og gögn sem tengjast meðferð máls, meðal annars að teknu tilliti til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og h) hvernig meta skuli annars vegar árangur þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til og hins vegar hvort þörf sé á almennum aðgerðum á vinnustað í kjölfar máls.
Það er skylda atvinnurekanda að grípa til aðgerða eins fljótt og kostur er sem miða að því að leysa þann vanda sem upp er kominn og er það óháð því hvort ábendingin eða kvörtunin reyndist á rökum reist eða ekki. Í því felst einnig að endurskoða áhættumat og áætlun um forvarnir með það að leiðarljósi að samskonar atvik endurtaki sig ekki.
Unnið upp úr lögum nr. 46/1980 og reglugerð nr. 1009/2015.
Lög og reglugerð þessa má nálgast á heimasíðu Vinnueftirlitsins www.vinnueftirlit.is
Nánari upplýsingar veitir Ásta Snorradóttir, fagstjóri félagslegra og andlegra áhættuþátta í vinnuumhverfi This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.