Læknar á landsbyggðinni

Í lok apríl var haldinn íbúafundur á Borgarfirði eystri um heilbrigðismál. Aðaltilgangur fundarins var að ræða hvernig hægt væri að styðja við viðbragðshóp staðarins, sem sárvantar bakland. Ýmislegt fleira kom fram á fundinum sem varpar ljósi á hvernig heilbrigðisþjónusta er í hinum dreifðu byggðum.

Borgfirðingar gátu síðast fengið fasta tíma hjá lækni í heimabyggð í byrjun árs 2009. Hreppsnefndin bauðst til að borga ferðakostnað læknisins, hátt í eina milljón króna á ári, en það var ekki vandamálið, heldur það að læknar eru takmörkuð auðlind – og það ekki bara á Borgarfirði.

Forstjórar heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sendu heilbrigðisráðherra nýverið bréf þar sem þeir vöktu athygli á að læknum á landsbyggðinni hefur fækkað um 21 á síðustu tíu árum. Það eru sláandi tölur. Austfirðingar hafa hins vegar horft upp á þróunina fyrir framan nefið á sér án þess að geta mikið gert.

Blessunarlega eru læknar ekki eina heilbrigðisstarfsfólkið og stjórnendur HSA hafa brugðist við með því fela hjúkrunarfræðingum að meta hvaða mál eigi erindi við lækna og annast sjálfir þau sem þeir geta. Einstaklingum með stoðkerfisvandamál, svo sem bakverki, er vísað til sjúkraþjálfara sem oft vita meira um þann tiltekna vanda en læknar.

Það breytir því ekki að læknar eru hryggjarstykkið í heilbrigðisþjónustunni. Svo virðist sem sú kynslóð lækna sem haldið hefur uppi heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni sé að hverfa og ný ekki í sjónmáli.

Stjórnendur HSA hafa sérstaklega vakið athygli á að í læknanámi hérlendis skorti á að nemendur séu markvisst sendir út á land til þjálfunar. Þess vegna er gott til þess að vita að nýverið fór um fjórðunginn stór hópur sérnámslækna í heimilislækningum. Vonandi hafa kynnin verið það góð að þeir velji svæðið til búsetu að námi loknu.

Jákvæð teikn má finna í stefnu í heilbrigðislækningum til ársins 2030 sem liggur fyrir Alþingi. Þar er boðað að grunnmenntum heilbrigðisstarfsfólks verði aðlöguð íslenskum aðstæðum til að tryggja mönnun þjónustunnar. Í greinargerð er sérstaklega talað um að starfsnám lækna sé um of sniðið að þörfum sjúkrahúsa, en ekki heilsugæslunnar. Menntunina þurfi því að endurskoða, meðal annars með hliðsjón af aðstæðum í hinum dreifðu byggðum.

Það er alltaf fyrsta skrefið að lausn vandans að viðurkenna hann. Þótt námsskrá lækna yrði breytt daginn eftir samþykkt stefnunnar, sem gæti orðið fyrir þinglok, mun það taka ár fyrir lækna að fara í gegnum kerfið og útskrifast, tilbúnir til starfa á nýjum stað. Læknamönnun er enn eitt baráttumál landsbyggðarinnar. Vandinn er kunnuglegur, fjöldinn elst upp í Reykjavík og er ekki tilbúinn að flytjast á staði sem hann þekkir illa eða hefur fengið neikvæða mynd af. Í þessu tilfelli er þó hægt að beita náminu markvisst til að breyta því. Það gefur vonarglætu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.