Land er undirstaða fullveldis
Nýlega var dreift á Alþingi frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur um breytingar á lögum sem varða eignarráð og nýtingu fast- og jarðeigna. Frumvarpið er að mínu viti eitt hið mikilvægasta sem þessi ríkisstjórn hefur boðað. Það er vegna þess að eignarhald á landi er svo geysilega mikilvægt og hefur áhrif áratugi fram í tímann. Að sama skapi gæti það orðið afdrifaríkt til lengri tíma að leyfa núverandi ástandi að viðhaldast.Frumvarpið felur í sér miklar breytingar. Einna veigamest er kvöð um aukið gagnsæi, meðal annars um kaupverð á fasteignum, og ákvæði sem setja markaðnum takmörk. Leita þarf samþykkis ráðherra til þess að kaupa fasteignir yfir ákveðinni stærð. Hið sama þurfa aðilar að gera, sem eiga nú þegar miklar eignir og vilja eignast fleiri.
Seld nú ertu, sveitin mín
Land er undirstaða þess að ríki séu fullvalda. Málefnið er einfaldlega of mikilvægt til þess að leyfa markaðsöflunum einum að ráða för. Í dag eiga flestir bændur sínar jarðir og margir þeirra líta á sig sem gæslumenn jarðanna, jafnvel að jarðirnar eigi þá frekar en að þeir eigi jarðirnar. Þetta er þó tiltölulega nýtilkomið á Íslandi. Fyrr á öldum voru það kirkjurnar, konungurinn og fámenn yfirstétt, sem áttu megnið af jörðum í landinu. Það var ekki fyrr en á tuttugustu öld sem íslenskir bændur eignuðust sjálfir sínar jarðir. Nú erum við í kjölfar alheimsfaraldurs af völdum kórónaveirunnar að sigla inn í tíma þar sem æ meiri áhersla verður lögð á fæðuöryggi og heimamarkað. Glötum ekki fullveldi bænda og sveita á þeim tímamótum!
Þarna er hætta á ferðum því síðustu áratugi held ég að þróunin hafi snúist við. Með markaðsvæðingu og breytingum á jarðalögum árið 2004 varð sprenging í viðskiptum með jarðir. Eignaverð hækkaði og einhverjir bændur, sem settust í helgan stein, gátu innleyst stóra tékka. Í sumum tilvikum keyptu auðmenn jarðirnar. Í minni heimasveit, Vopnafirði, gerðist þetta í stórum stíl. Þegar ég var stráklingur voru það bændur sem áttu jarðirnar og í öðrum tilvikum afkomendur bænda á þeim jörðum þar sem búskapur hafði lagst af. Núna er það auðmaður sem á stóran hluta af sveitinni minni. Í einu tilviki vissi ábúandi ekki einu sinni af því að eigendaskipti höfðu orðið. Það segir sitt um hversu vel er farið eftir núgildandi jarðalögum, sem mæla fyrir um að tilkynna þurfi aðilaskipti til viðkomandi sveitarstjórnar.
Ég held að það sé betra fyrir samfélögin og landbúnaðinn að ábúendur eigi sínar jarðir sjálfir eins og framast er unnt. Að öðrum kosti eru þeir upp á duttlunga auðmanna komnir. Erfitt getur reynst að þróa landbúnað komandi tíma ef ekki er hægt að byggja á jörðunum. Hætt er við að sveitir, þar sem bændur eru leiguliðar, verði á fáum áratugum lifandi byggðasöfn um búskaparhætti.
Rétturinn til að selja sveitina
Við lestur umsagna við frumvarp Katrínar kemur í ljós að helstu röksemdir andstæðinga frumvarpsins eru kunnuglegt þvarg um eignarréttinn og markaðinn. Það má alls ekki hafa neyðarhemil ef að selja á landið sjálft. Þetta þykja mér ekki merkileg rök. Eignarrétt ber að virða en ekki tigna sem skurðgoð. Hann hefur sín takmörk og í honum felst ekki sjálfkrafa réttur til að selja auðmönnum sveitirnar.
Raunar má greina undirliggjandi annan tóm sem er hugmyndafræði óhefts kapítalisma. Ekki megi setja markaðnum skorður. Slík hugsun er úr sér gengin og gjaldþrota. Það er ekki nema áratugur síðan að við glímdum við afleiðingar „spilavítiskapítalisma“ sem byggði á þeirri hugmyndafræði að markaðurinn ætti að ráða einn og sjálfur. Blinda trú á að auðmenn taki gáfulegar ákvarðanir aðhyllist ég ekki.
Þá er einnig að finna tón um að hér sé forræðishyggja á ferðinni. Verið sé að færa of mikil völd til lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Ég spyr á móti, hver annar á að bera ábyrgðina? Hver annar á að geta gripið inn í ef selja á heila sveit? Það verður að vera kjörinn fulltrúi sem ber fulla pólitíska ábyrgð á því hvað hann gerir. Ég veit að ég treysti stjórnmálamönnum betur til þess að axla ábyrgð, frekar en markaðurinn, ef Jim Ratcliffe eða niðjum hans dytti í hug að gera bílastæði úr sveitinni minni.