Landið eitt kjördæmi

Björgvin Valur Guðmundsson skrifar:   Eitt af því sem verður að breytast á Íslandi í þeirri lýðræðisbyltingu sem nú stendur yfir, er kjördæmaskipunin. Við eigum, að mínu mati, um tvennt að velja í þeim efnum; einmenningskjördæmi eða landið allt eitt kjördæmi. Ég hallast frekar að hugmyndinni um eitt kjördæmi og ætla nú að færa rök fyrir því.

Stjórnmál á landsbyggðinni snúast um atvinnusköpun og samgöngur. Kannski heilbrigðismál að einhverju leyti en þá bara rétt á meðan einhver leiðindi snúa beint að fólkinu í tilteknu kjördæmi. Til dæmis ef heilbrigðisráðherra birtist með niðurskurðarhnífinn eða önnur lókal vá er fyrir dyrum.

Raunar má segja að stjórnmálabröltið í landsbyggðarkjördæmunum sé framlenging á sveitarstjórnarmálunum enda eru margir þingmenn hér um slóðir fyrrum hreppsnefndarmenn eða bæjarfulltrúar. Það þykir gott veganesti að vera sjóaður í sveitarstjórnarpólitíkinni og enn betra ef menn taka hana með sér inn á þing.

Frambjóðendur í Norðausturkjördæmi þurfa að tala fyrir miðstöð millilandaflugs á Akureyri og Egilsstöðum, álveri á Bakka, jarðgöngum til Norðfjarðar, Seyðisfjarðar og Vopnafjarðar, heilsársvegi yfir Öxi, malbiki á veginn yfir Breiðdalsheiði, höfnum fyrir olíuleitarmenn á Langanesi og vera á móti innflutningi á landbúnaðarvörum, allt eftir því hvar í kjördæminu þeir eru staddir í það og það skiptið. Það er að segja ef þeir vilja verða kosnir á þing.

Það dugar þeim ekki að mæta á fund á Húsavík og vera spurðir um álver af eða á og svara:  „Tja, ég hef nú ekkert sérstakan áhuga á því, til eða frá.  Ég er nú meira svona að hugsa um jafnréttismál og utanríkispólitík.“

Eða segja Norðfirðingum að það sé mun brýnna fyrir landið sem heild að tvöfalda þjóðvegina út úr höfuðborginni og leggja Sundabraut en að grafa göng undir fjallið þeirra. Þingmenn og frambjóðendur verða að taka undir með trillukarlinum á Stöðvarfirði sem vill frjálsar veiðar smábáta en síðar sama dag er þeim lífsnauðsynlegt að lofa eigendum Síldarvinnslunnar að ekki verði hreyft við kvótakerfinu.

Fólk sem brennur ekki af áhuga á málefnum nærumhverfisins, getur gleymt því að bjóða sig fram úti á landi. Nú vil ég ekki halda því fram að þessi pólitík sé verri en önnur; þetta bara er kúltúrinn hérna úti á landi. Pólitík á Austurlandi skal vera um nærumhverfi og daglegt líf.

Þetta er hundþreifandi leiðinlegt. Sérstaða hitt og sérstaða þetta; er ekki nóg að við séum sérstæðust meðal þjóða heimsins? Er ekki nóg að hin séríslenska sérstaða marki okkur sérstöðu og geri okkur sérstök? Jú, og meira að segja sú aðgreining er of mikil.  

Við þurfum ekki austfirskt þetta eða ausfirskt hitt, norðlenskt eða sunnlenskt. Við megum ekki við því, öll þrjúhundruðogeitthvaðskítblönkuþúsundin að smætta okkur meira en það; þrjú hundruð og eitthvað þúsund. Sem þjóð er um við of smá, fá og veikburða til aðvið getum leyft okkur að standa í metingi og tilgangslausu þrasi milli landshluta eða landsbyggðar og höfuðborgar.

Þegar sveitarstjórnarmenn vilja sýnast stórir, fara þeir og sameina sveitarfélög sem getur vissulega verið af hinu góða þegar vel tekst til (er mér sagt) og þeir eiga því að leggjast sem einn maður á þá sveif að gera landið allt að einu kjördæmi.

Áfram KR.  

(Samfélagsspegill Austurgluggans 12. febrúar síðastliðinn)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar