Landlæknisembættið kannar mál læknis

Landlæknisembættið hefur gert athugasemdir við störf yfirlæknis heilsugæslu Fjarðabyggðar. Frá þessu var greint í Svæðisútvarpi Austurlands í dag. Þar kom fram að fundið sé að meðhöndlun sjúklinga og færslum í sjúkraskrár. Sagði Matthías Halldórsson landlæknir í samtali við útvarpið að athugun embættisins væri eingöngu fagleg og kæmi lögreglurannsókn á embættisfærslu yfirlæknisins á engan hátt við.

Aðstoðarlandlæknir hefði farið austur fyrir um hálfum mánuði að beiðni yfirstjórnar HSA til þess að leggja mat á gögn í málinu. Í kjölfarið hefði hann sett fram formlegar athugasemdir við lækninn. Matthías vildi samkvæmt frétt útvarpsins ekkert gefa upp um hversu alvarlegar athugasemdirnar eru eða hvers eðlis að öðru leyti en því að þær sneru að meðhöndlun sjúklinga og færslum í sjúkraskrár.

Að sögn fór yfirlæknirinn fram á frest til að nýta sér andmælarétt sinn og haft var eftir Matthíasi að sá frestur hefði góðfúslega verið veittur, enda læknirinn ekki starfandi sem stendur, þar sem hann var leystur tímabundið frá störfum vegna lögreglurannsóknarinnar.

www.ruv.is/austurland/

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar