Landsbankinn leggur fram gögn
Landsbankinn hefur nú lagt fram upplýsingar sem hann neitaði AFLi Starfsgreinafélagi og öðrum viðskiptavinum um í byrjun nóvember síðastliðnum. AFL stefndi bankanum og Landsvaka, peningamarkaðsfyrirtæki bankans í kjölfarið og krafðist ýtarlegra gagna um viðskipti síðustu vikur fyrir lokun sjóðsins, upplýsinga um verkferla og möguleg innherjaviðskipti síðust vikur sjóðsins.
AFL segist muni halda málinu áfram enda traust fólks á vinnubrögð forsvarsmanna peningamarkaðssjóðanna ákaflega lítið og því nauðsynlegt m.a. að staðreyna að þær upplýsingar sem bankinn veitti í gær, séu í raun réttar og sannar.
Í tilkynningu AFLs vegna umfjöllun fjölmiðla um málið segir að tap félagsins nemi 168 milljónum króna. ,,Fjárhagur félagsins er eftir sem áður traustur. Félagið hefur notið verulegra tekna vegna iðgjalda m.a. erlends launafólks vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers ALCOA. Stjórn félagsins tók þá ákvörðun að leggja tekjur umfram rekstrargöld fyrir til að safna varasjóðum.
Tap félagsins og sjóða þess við nýafstaðið bankahrun gekk ekki á höfuðstól inneigna þess en verulega gekk á ávöxtun síðustu ára. Félagið átti fé í öðrum innlánsstofunum og hefur ekki orðið fyrir tjóni vegna þeirra.
AFL hefur á liðnum árum staðið að árangursríkum verkefnum í nærsamfélagi á Austurlandi síðustu ár og má þar nefna verulega aðkomu félagsins að menntunarmálum fullorðinna, sí-og endurmenntun. Ennfremur stofnun Starfsendurhæfingu Austurlands sem nú starfar við góðan árangur og veitir tugum einstaklinga þjónustu.
AFL Starfsgreinafélag rekur skrifstofur á 10 stöðum á Austurlandi,“ segir í tilkynningunni.