Landsbyggðarskattur í uppgangi

Skilningsleysi á stöðu fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni virðist síst vera að minnka. Nærtækt er að nefna ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu, fullkomlega óboðlegar vegasamgöngur víða um land, óheyrilegan flutningskostnað á vörum og skerta þjónustu svo sem á póstflutningum og í bankarekstri. Nýjasta útspilið er svo landsbyggðaskattur í formi bílastæðagjalda á flugvöllunum í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum.

Það hljómar kannski eins og jafnræði að þessir þrír stóru flugvellir séu felldir undir sama hatt en það er svo sannarlega ekki staðan.

Um flugvöllinn á Egilsstöðu fara til að mynda einstaklingar sem þurfa að fljúga til Reykjavíkur til þess að sækja lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það hentar kannski fólki sem er búsett nálægt flugvellinum að geyma bílinn heima og láta skutla sér á völlinn. Egilsstaðaflugvöllur þjónar hins vegar gríðarlega stóru svæði og íbúar tveggja stórra sveitarfélaga, Fjarðabyggðar og Múlaþings, telja yfir 10.000, sem mörg hver hafa um langan veg að fara til að nýta sér flugsamgöngur. Nú hafa bæði þessi sveitarfélög bókað andstöðu sína við þá ómanneskjulegu ákvörðun að leggja á gjöld sem eru gróf mismunun gagnvart landsbyggðarfólki.

Þessi gjöld koma svo ofan á allan auka kostnað sem fellur í skaut íbúa á á landsbyggðinni þegar einstaklingar, sem sækja sér lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem krefst langra fjarvista að heiman, að leggja fram háar upphæðir í formi bílastæðagjalds til Isavia, fyrirtækis sem skilaði hagnaði upp á 2,1 milljarð króna eftir skatta árið 2023.

Eins og þetta sé ekki nóg þá má líka benda á að flugfargjöld innanlands hafa hækkað um 50% frá því að loftbrúnni var komið á. Landsbyggðarskattheimtan lætur ekki að sér hæða.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar