Laus af leigumarkaði

Húsnæðismál hafa verið eitt af helstu áherslumálum Framsóknaflokksins í gegnum tíðina. Því er það fagnaðarefni að Alþingi hefur samþykkt frumvarp félags- og barnamálaráðherra um hlutdeildalán. Þau eru ætluð ungu fólki og tekjulágu. Markmiðið er að auðvelda þessum hópi að eignast sína fyrstu íbúð.

Um nokkurt skeið hefur ungt fólk og hluti þeirra sem misstu húsnæði sitt í hruninu átt erfitt með að eignast heimili. Margir hafa verið fastir á leigumarkaði en hlutdeildarlánin opna leið fyrir þá sem vilja losna og komast í eigið húsnæði.

Aðeins 5% eigið fé

Með hlutdeildarlánum veitir ríkið 20% viðbótarlán til húsnæðiskaupa. Það er endurgreitt við sölu eignarinnar og kaupandi þarf einungis að leggja út eigið fé sem nemur að lágmarki 5%. Lánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum. Þau fylgja fasteigninni og endurgreiðast annað hvort við sölu eða að 25 árum liðnum. Er þá miðað við sama hlutfall af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting hljóðaði upp á. Hér er því kominn raunverulegur möguleiki fyrir tekjulága fyrstu kaupendur til að eignast húsnæði.

Ríkið brúar bilið

Bilið milli þess sem fjármálafyrirtæki eða lífeyrissjóðir lána og kaupverðs er brúað. Því með hlutdeildarlánum er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitt heimild til að veita lán til fyrstu kaupenda og kaupenda sem ekki hafa átt fasteign síðastliðin fimm ár og hafa tekjur undir 7.560.000 kr. á ári miðað við einstakling eða 10.560.000 kr. samanlagt fyrir hjón á ári miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þá fjárhæð bætast 1.560.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni fram að 20 ára sem býr á heimilinu.

Sérstakar reglur um köld svæði

Á höfuðborgarsvæðinu gildir þetta um nýjar hagkvæmar íbúðir en eins og öllum er ljóst getur það illa átt við marga aðra staði. Þess vegna gilda sérstakar reglur um hin svokölluðu köldu svæði. Þar geta menn tekið hentugt eldra húsnæði til gagngerra endurbóta og komið í nýtingu. Nú skapast gott umbótatækifæri sem styrkir byggð því skilyrt er að HSM úthluti a.m.k. 20% lánanna til húsnæðiskaupa á landsbyggðinni.

Hér er verið að tryggja aðgang ákveðins hóps um allt land að úrræði sem er byltingakennt og jákvætt. Við framsóknarmenn þorum að hugsa út fyrir kassann og leitum framsækinna lausna sem styrkja jafnrétti til búsetu.

Hér er um gott framfara-, byggða- og jafnréttismál sem við hljótum öll að geta fagnað.

Áfram veginn.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar