Orkumálinn 2024

LAust2: Dagbók vitavarðarins á Nesi

23. október 1939 kl. 19:15

Undirritaður vaknaði við heljarbyl þegar klukkan var um 10 mínútur gengin í 7 í morgunsárið. Þá hafði sjór gengið inn í anddyri vitans og tók þá undirritaður til handanna og jós út því vatni sem þar var og hafði það unnið umtalsverðar skemmdir á gólffjölum. Að því loknu hélt undirritaður með miklum flýti upp í ljóshús til að gá að ljósinu. Þegar þangað kom sá undirritaður að dáið var í luktinni og skipta þurfti því um kveik og olíu auk þess sem fægja þurfti kúpulinn.

Einhverjir bátar hafa farið hér hjá í dag og rétt náðist að koma ljósi á luktina áður en Lukka skundaði hér framhjá, með þá Snorrasyni innanborðs. Því skall þar hurð nærri hælum og var duggan nærri lent á skerjunum í myrkrinu. Undirritaður vonast því eftir hæglátara veðurfari eftir því sem líður á haust og vetur, þó að sú von sé veik.

5. júní 2001 kl. 12:47

Sólríkt hér á Nesi. Suðsuðaustan 4 m á sek. 11 gráður á celsius. Kaffisopi eftir miðdegisverð sem að þessu sinni var steiktur kolmunni sem fékkst í netið í morgun, stappaðar kartöflur og laukfeiti með rúgbrauðinu sem Denni á Jaðri færði mér í síðustu viku.

Hann lítur út fyrir að vera að hvessa og þykkna upp, líklega súld með kvöldinu en morgundagurinn ætti að vera heiður, ef allt gengur eftir.

Hnísur sáust að leik rétt utan við skerin fyrr í dag, undirritaður gleymdi sér um stund við að fylgjast með skepnunum og sýndist ekki betur en þær væru að leika sér að loðnutorfu þar úti. Undirritaður íhugar að hafa samband við Loðnuvinnsluna inni í firði og láta vita af mögulegum afla sem hér gæti verið á ferðinni, í von um að hjálpa til við starfsemina þar, sem góð er og gild.

Nú tekur við dálítill blundur eftir veðurfréttir og svo mun undirritaður eyða deginum við eftirlit með mælum og veðurathugun verður gerð á þriðja hverjum heila tíma, venju samkvæmt. Auk þess ætlar undirritaður að ditta að glugga á suðurhlið þriðju hæðar en grunur leikur á að þar komist regnvatn innfyrir og hefur undirritaður helst til raka í því máli, poll sem hann steig í á leið sinni til svefnálmunnar laust undir 23 í gærkvöldi, en þá rigndi.

Er undirritaður leit sjálfsmynd sína í regnvatninu, fann hann fyrir nærveru forfeðra sinna, samferðarmanna og ókominna afkomenda. Hann fann að heimurinn hvílir í bláma augna hans og að tilgangur veru hans hér á Nesi er að nýta ljósið sem í honum býr til þess að hjálpa mannkyninu að horfast í augu við fordóma sína, ranglæti og hroka. Merkilegt, hugsaði undirritaður með sér í þann mund sem andlitið hvarf úr pollinum.

17. janúar 2023 kl. 06:06

Undirritaður er orðinn þreyttur, mjög þreyttur. Þreyttur á því að vera einn, þreyttur á því að ekki sé á hann hlustað. Þrátt fyrir að dagurinn sé rétt að byrja þá er dagur undirritaðs að kveldi kominn. Undirritaður hefur haft samband við hnísurnar og spurst fyrir um mögulegt far með þeim inn í aðra veröld. Veröld þar sem allir eru vitar, vita sínu viti og taka ekki pláss frá neinum. Syngja saman á ströndum og vita að þeir geta stækkað endalaust, í eina átt; upp. Ef hnísurnar reynast seinar til svara hefur undirritaður það í hyggju að yfirstíga sitt mannlega form og gerast eitt með ljósinu. Þannig getur undirritaður haldið áfram að skína í gegnum svartnætti fáfræðinnar, ranglætisins og hræðslunnar sem lagst hefur yfir og þannig, vonandi, orðið einhverjum að liði, þrátt fyrir að sú von sé veik.

- Vitavörðurinn

 

Austurfrétt birtir næstu vikur sýnishorn úr verkum sem verða til hjá þeim sem sinna skapandi sumarstörfum á vegum Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar undir merkjum LAust. Almar Blær er nemi í leiklist við Listaháskóla Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.