Laxeldi í Seyðisfirði

Ég ætlaði að hlífa mér við að taka afstöðu í laxeldismálinu. Á Seyðisfirði er nóg af fólki sem hefur bakgrunn og þekkingu til að skoða þetta mál vel með hagsmuni náttúrunnar og heimafólks að leiðarljósi. Ég ætlaði að kjósa samkvæmt þeirra ráði. Kjáni!

Umsækjendum um 10 þúsund tonna laxeldi í firðinum finnst opinberlega að þetta komi Seyðfirðingum ekki við. Vitandi það samþykkir nýja sveitarstjórnar valdið okkar, með níu atkvæðum gegn tveimur, velþóknun á verkefninu. Er ríkisvaldið kannski líka þeirrar skoðunar að þetta komi okkur ekki við? Það lítur þannig út.

Seyðisfjörður er mjög viðkvæmt vistkerfi, friðsælt ofan og neðan sjávar. Fjörðurinn hreinsar sig því hægt. Vandamálin eru ærin fyrir. Stöðugur leki er úr El Grillo, norðurströndin innfjarðar er olíumáluð og fuglar deyja í brákinni. Þá fáum við 60-80 skemmtiferðaskip á ári og ferju vikulega. Það er verulegt skólp.

Væri ekki nær að sinna þessum brýnu vandamálum áður en bætt verður við? Þá getur það varla verið boðlegt að stunda matvælaframleiðslu við þessi skilyrði. Eiga embættismenn (sérfræðingarnir að Sunnan) og gróðafíklar (sjá ekki út fyrir eigin sérhagsmuni) að ráðskast með þetta mál?

Íslensk stjórnsýsla er í ógöngum. Áður voru sveitarfélög heimastjórnir allra byggðarlaga og vettvangur fyrir samskipti heimamanna og ríkisvaldsins um málefni. Þetta var vald íbúanna um eigið umhverfi. Með sameiningu stjórnsýslu margra byggðarlaga er verið að færa allt vald yfir málefnum hvers og eins í hendur fjarstaddra sérfræðinga sem rannsaka og greina hvað skuli gert og hvernig. Vísindaleg niðurstaða ekki álit. Stofnanir, sem áður voru framkvæmdaaðilar ákvarðana teknum af heimamönnum og ríki, eru nú ákvörðunarvald í krafti vísindalegrar þekkingar og í ljósi skilningsleysis annarra á eigin hagsmunum.

Þvættingur. Ég sé það svo greinilega, bæði í aurskriðumálinu og í meðferð laxeldisumsóknarinnar. Grunneining stjórnsýslunnar á að vera vald fólks yfir sínu nánasta umhverfi. Þá er valdið hjá þeim sem njóta árangurs og líða fyrir mistök eigin ákvarðana. Enginn sérfræðingur þar á milli.

Ég krefst þess að Seyðfirðingar fái úrskurðarvald um laxeldi í firðinum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.