Leiðari Austurgluggans 16. tbl. 24. apríl 2008
„Hver á að borga?“ spurði fyrirliði íþróttaliðsins sem var á leið austur á land til að keppa og horfðist í augu viðframkvæmdastjóra sérsambandsins. „Þarf leikurinn að vera á þessum tíma. Getum við ekki flýtt honum svo við náum fluginu?“ Sá stóð fastur á sínu, leiktíminn hafði löngu verið ákveðinn og kynntur.
Honum yrði ekki breytt. Og svo var það gistingin. Hver einasta rekkja á Austurlandi virtist upptekin. „Það er miklu auðveldara að finna gistingu í Reykjavík.“
En viðhorf fyrirliðans endurspeglar því miður viðhorf margra innan íþróttahreyfingarinnar. Forsvarsmenn austfirskra íþróttaliða eru ekki ókunnugir hamaganginum við að koma gestunum, dómurum sem leikmönnum í flug sem fyrst, svo menn geti gist heima hjá sér og mætt í vinnuna morguninn eftir. Það gengur sjaldan svo vel með leiktíma austfirsku liðanna. Þau reyna líka yfirleitt að fara helgarferðir og leika
tvo leiki í einu. Slíkt kallar á afar slitrótt keppnistímabil. Og hver borgar? Austfirsku liðin þurfa alla jafna fleiri ferðir suður til Reykjavíkur en borgarliðin út á land. Og þau þurfa gistingu. Lengi skriðu þau í skjól Ungmennafélags Íslands en þar til nýjar höfuðstöðvar sambandsins verða tilbúnar er sá möguleiki ekki fyrir hendi.
Liðin af stór-Reykjavíkursvæðinu byrja með forskot. Í fyrsta lagi laða þau til sín bestu leikmennina af landsbyggðinni í gegnum atvinnu og skóla. Í öðru lagi hafa þau aðgang að miklu fleiri og mun öflugari styrktaraðilum. Peningar landsbyggðarliðanna fara fyrst í að borga Flugfélagi Íslands.
Síðan er hægt að spá í aðkeypta leikmenn, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir. Sé eitthvað eftir í buddunni. Ferðasjóðir íþróttafélaganna er fyrsta skrefið í að leiðrétta aðstöðumuninn. En hann lagar bara hluta af hallanum. Eftir stendur gjaldþrota hugarfar.