Leiðari Austurgluggans 17. tbl. 30. apríl 2008

Ágæt staða

Við Íslendingar erum einstakir snillingar. Við höfum engan áhuga á Evrópusambandinu, enda erum við sjálfstætt fólk. Við þurfum ekki á Evrópskum reglum að halda. Þetta er sú stefna sem stjórnvaldshafar Íslands hafa.

Gjaldeyrir okkar, þessi títtnefnda króna, þykir afskaplega góð. Þótt hún rokki upp og niður um tugi prósenta á nokkrum dögum, þá virðist það vera í lagi – af því að hún er íslensk. Það skal enginn kasta rýrð á barnið okkar.
Þó að sú staðreynd liggi fyrir að við Íslendingar samþykkjum umbúðalaust reglugerðir frá Brussel í gegnum EES samninginn án þess að vilja hafa neitt af því að segja. Þó að við séum á fríverslunarsvæði Evrópu. Þó að við séum í Schengen og störfum á einu atvinnu- og landamærasvæði. Já þó að við samþykkjum þetta allt sem við þykjumst ekki vilja. Þá finnst okkur krónan vera fín og vera til þess fallin að skapa okkur sem allra mesta velmegun um ókomna tíð.

Þó að stærstu ríki Evrópu hafi séð sér hag í því að taka upp evru og leggja niður sína ríkisgjaldmiðla. Þá finnst okkur krónan mun betri.

Krónan getur jú hjálpað okkur við að halda í hávaxtastefnuna svo almenningur og smærri fyrirtæki í landinu megi svitna. Svo að smærri fyrirtæki í landinu geti aldrei boðið sömu kjör og stórfyrirtæki og þannig stuðlað að samkeppni. Svo að Ísland geti áfram verið ein fárra þjóða í heiminum sem býður þegnum sínum upp á verðtryggingu sem étur eignir þeirra. Svo Ísland geti verið fast í viðjum kotbúskapar um ókomna tíð. Svo lánastofnanir í landinu þurfi aldrei að upplifa lögmál markaðarins.

Landsins mestu fræðingar leggja til að við skiptum um gjaldmiðil til hagsbóta fólkinu í landinu. Landsins mestu stjórnmálamenn hafa ekki lengur hugsjónir – þess vegna munu þeir falla af stalli sínum, og hugsjónafólk mun taka við sem vill vinna fyrir þegna Íslands.

Til lengri tíma litið er sú staða hreint ágæt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.