Leiðari Austurgluggans 21. tbl. 29. maí 2008
Sjómannadagurinn er framundan. Það er mikilvægt að íbúar á Austfjörðum haldi hann hátíðlegan og sýni sjómönnum þakklæti og stuðning á þeirra degi.
Sjómannastéttin skipaði stóran sess í austfirsku samfélagi ekki fyrir margt löngu. Nú hefur skipum hins vegar fækkað, aflasamdráttur hefur orðið og önnur störf hafa skapast í landi sem ekki voru til staðar áður. Það má samt segja að austfirsk þjóðarsál byggist fyrst og fremst á sjávarútvegi og landbúnaði. Að þessum greinum þarf að hlúa. Við Austfirðingar þurfum á þessu greinum að halda þannig atvinnulífið verði áfram fjölbreytt og skemmtilegt, aðeins þannig getum við búist við því að börn okkar ílengist hér til búsetu.Stöðugleikanum er ekki alltaf til að dreifa. Þau válegu tíðindi að þorskkvótann yrði að skera niður voru miklar búsifjar fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Í kjölfarið var m.a. frystihúsinu á Eskifirði lokað og við það töpuðust tugir starfa.
Sem betur fer hafa Austfirðingar skapað sér sérstöðu við frystingu og bræðslu á uppsjávarfiski, hér eigum við góðar versksmiðjur og frábær og velmönnuð skip. Þess vegna voru ekki góðar fréttir þegar allt útlit var fyrir að nær enginn loðna veiddist á loðnuvertíðinni. Það var erfið staða sem stjórnendur Eskju, Loðnuvinnslunnar, Síldarvinnslunar og HB Granda stóðu frammi fyrir – en allt eru þetta fyrirtæki sem byggja afkomu sína á Austfjörðum að mikli leyti á loðnuveiðum. Það varð þó til láns að loðna fannst að lokum og sjávarútvegsráðherra gaf út leyfi til loðnuveiða á nýjan leik. Í heildina varð loðnuvertíðin frekar mögur, en gleðilegt að þó skyldi loðna veiðast eftir tvísýna stöðu. Gengi krónunnar lækkaði næstu vikur á eftir og fyrirtækin fengu hærra verð fyrir hráefnið en ella.
Fyrir skömmu yfirgaf okkur þekktasti útgerðarmaður Austurlands fyrr og síðar, Aðalsteinn Jónsson frá Eskifirði. Fráfall Aðalsteins er mikill sjónarsviptir fyrir Eskfirðinga. Á sjómanndaginn er full ástæða til að minnast Aðalsteins um stund og leyfa afrekum hans að verða okkur hvatning til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar á Austurlandi öllu.
Austfirðingar, höldum sjómanndaginn hátíðlegan – samgleðjumst hetjum hafsins, sjómönnunum. Hvetjum stjórnendur sjávarútvegsfyrirtæjanna til dáða og til góðra verka. Stöndum vörð um austfirskan sjávarútveg. Hugsjónin ein er gagnslaus án atorku, dugnaðar og stuðnings.