Leiðsögn með gervihnöttum er framtíðin

Leiðsaga með leiðréttingarkerfi um gervihnött er að taka við af eldri hefðbundinni leiðsögutækni.Vandi Íslands hefur til þessa verið að það hefur ekki verið innan skilgreinds þjónustusvæðis gervihnattaleiðsögu og því ekki getað byggt á slíkri þjónustu um allt land. Það er því sérstakt fagnaðarefni að nýlega hefur Ísland fengið umsókn sína um aðild að EGNOS-verkefninu (European Geostationary Navigation Overlay Service) samþykkta.

Aðild að EGNOS eru góðar fréttir

Aðild Íslands að EGNOS kerfinu eru gleðitíðindi, en Alþingi hefur ítrekað samþykkt stefnumótun þar sem lögð er áhersla á að Íslandi verði tryggður aðgangur að gervihnattaleiðsögn. Ekki síst hafa þingmenn Norðausturkjördæmis lagt áherslu á þessi mál. Á síðasta kjörtímabili var hnykkt á áherslu um aðild að EGNOS-verkefninu í Samgönguáætlun, Fjarskiptaáætlun og stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.

EGNOS verkefnið er samevrópskt leiðsögukerfi byggt á gervihnöttum sem eykur nákvæmni leiðsögu með tímamælingum frá gervihnöttum, meðal annars GPS-kerfis Bandaríkjanna og Galileo-kerfis Evrópusambandsins. EGNOS mun því nýtast sérstaklega vel þar sem krafist er mikillar nákvæmni og áreiðanleika, til að mynda við aðflug að flugvöllum.

Fjölmörg tækifæri felast í notkun EGNOS kerfisins í flugsamgöngum hér á landi, þar sem dregur verulega úr þörf fyrir endurnýjun á hefðbundnum aðflugsbúnaði. Aðgengi að EGNOS verkefninu nýtist ekki einungis til að auka hagkvæmni og öryggi í flugsamgöngum heldur getur það nýst í öllum samgöngum hvort sem er á lofti, láði eða legi og þar með við leit og björgun.

Stækkun þjónustusvæðis

Forsendur og markmið fyrir þátttöku Íslands og framlagi til verkefnisins er að tryggja að þjónustusvæði EGNOS nái yfir allt landið og miðin. Nú þegar er unnið að innleiðingu EGNOS-aðflugs fyrir flugvellina á austari hluta landsins eða frá Akureyri til Hafnar í Hornafirði.

Í kerfinu eru þrír gervihnettir og net 45 jarðstöðvar víðsvegar um Evrópu eða rétt utan hennar. Tvær slíkar jarðstöðvar eru staðsettar á Íslandi, á Egilsstöðum og í Reykjavík og er þeim viðhaldið af Isavia ANS ehf. Það er einmitt gaman að geta þess að framkvæmdir ISAVIA í Hleinagarði á Fljótsdalshéraði tengjast slíkri jarðstöð. Til að tryggja þjónustuna um allt land þarf hugsanlega að koma upp fleiri jarðstöðvum hér á landi eða á Grænlandi.

Höfundur er þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.