Lifandi atkvæði
Nú eru aðeins fáir dagar til kosninga og margir horfa spenntir á niðurstöður skoðanakannana. Jafnvel má vera að ýmsir láti þær ráða nokkru um hvernig þeir verja atkvæði sínu á kjördag.
En svo vill til að ekki er alltaf hægt að nota þær til að átta sig á fylgi framboða og veldur því bæði tregða fyrirtækjanna í þessum geira til að gera kjördæmabundnar kannanir og eins sérviska þeirra í framsetningu niðurstaðnanna þar sem mismunandi margir flokkar eru settir undir hattinn „Aðrir“ og það síðan ekki brotið niður nánar þannig að enginn getur gert sér mynd af því hvers er hvað.
En hvers vegna getur þetta skipt máli? Það er auðséð. Flokkur sem býður fram í öllum eða flestum kjördæmum getur verið með a.m.k. 5-10% fylgi í einu kjördæmi, jafnvel nóg fyrir kjördæmakjörnum þingmanni, þótt fylgið á landsvísu sé kannski ekki meira en 2%. Og sé nú svo, hafa þá ekki kjósendur jafnmikið gagn af að vita um slíkt fyrir kosningar eins og um aðra fylgisþróun?
Smáflokkur heldur ekki áfram að vera smáflokkur nema honum mistakist að höfða til kjósenda. Eða þannig ætti það a.m.k. að vera. En þessi meingallaða útfærsla skoðanakannana getur því miður orðið til að byggja undir það sjónarmið að kjósandi sé að kasta atkvæði sínu á glæ með því að kjósa flokk sem mælist illa í skoðanakönnunum jafnvel þótt flokkurinn höfði mjög vel til hans. Þetta sjónarmið er alrangt og háskalegt lýðræðinu því það byggir undir það að flokkar sem hafa menn á þingi búi sjálfkrafa einir að þeirri stöðu áfram.
Auk þessa er vert að nefna að fái flokkur yfir 2,5% atkvæða á landsvísu kemst hann í pott þeirra stjórnmálaflokka sem fá úthlutað starfsfé á fjárlögum og á því auðveldara með að byggja upp starf sitt fyrir framtíðina.
Ef stefna Alþýðufylkingarinnar og/eða það fólk sem er í framboði fyrir þann flokk höfða það vel til þín, kjósandi góður, að þú getir hugsað þér að setja X við R á laugardaginn skaltu því alls ekki líta svo á að það atkvæði falli dautt, það mun í versta falli nýtast þótt síðar verði. Og hvað varðar möguleika mína á að verða kjördæmakjörinn þingmaður Norðausturkjördæmis þá eru þeir, með ykkar hjálp, ágætu kjósendur, raunhæfir og við skulum bara spyrja að leikslokum. X-R fyrir endurreisn velferðarríkisins.
Höfundur er bóndi og 1. maður á lista Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi