Lokað – en samt ekki!
Upp á síðkastið hefur nokkuð borið á auglýsingum um lokanir vega – bæði þjóðveginn um Oddsskarð svo og vega innanbæjar á Reyðarfirði og Eskifirði. Einnig hefur miðbænum á Seyðisfirði verið lokað. Í fyrra var Fagradal ítrekað lokað. Allt þetta til að auðvelda kvikmyndafyrirtæki að framleiða sjónvarpsseríu.
Nú er sjálfsagt að sýna liðlegheit og tillitssemi vegna verkefna sem lífga aðeins upp á skammdegið hjá okkur – en mér lék forvitni á að vita á hverju það væri byggt að loka almennum þjóðvegum fyrir umferð – hver heimilaði slíkt og hver væru viðurlög við því að virða ekki lokanir. Ég skrifaði því lögreglunni á Austurlandi og spurðist fyrir um þessi atriði og benda á að í vegalögum er margítrekað að þjóðvegir og héraðsvegir sem byggðir eru og viðhaldið fyrir opinbert fé – skuli frjálsir almenningi til umverðar. Ennfremur er ákvæði
„47. gr. Bann við því að raska öryggi umferðar.
Óheimilt er að aðhafast nokkuð það sem getur raskað öryggi umferðar, svo sem að valda skemmdum á vegi og mannvirkjum hans eða skilja eftir muni á eða við vegsvæði sem valdið geta hættu á slysum .....“
Svar lögreglu var:
„Tímabundanar umferðartafir á þjóðveginum um Fagradal, Oddskarð, og Fjarðarheiði eru með leyfi Vegagerðarinnar og lögreglu. Það þýðir ekki að þeir sem nauðsynlega þurfa að komast um vegina eigi ekki að komast leiðar sinnar.“
Ég er engu nær.