Lottóskipting og ferðakostnaður íþróttafélaga

UÍA hélt sitt sambandsþing á Vopnafirði í góðu yfirlæti Vopnfirðinga s.l helgi, gott þing og málefnalegt. Sambandssvæði UÍA (Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands) nær frá Djúpavogi til Vopnafjarðar og þingið flakkar á milli félaga á svæðinu sem halda það. Þannig verður það næst í boðið Vals á Reyðafirði. Aðildarfélög innan UÍA eru 41 og fer fjölgandi. Það sem hvetur mig til að skrifa þessa grein er að vekja athygli á því hvernig lottógreiðslur skila sér til íþróttafélaga hér á Austurlandi eða skila sér ekki í sumum tilfellum og samgöngumál íþróttafólks og gistimöguleika.

ÍSÍ fær 349.691.722 kr. út úr lottótekjum árið 2015. Eftir ákveðnum reglum renna 8% af því í afrekssjóð ÍSÍ, 5% til ÍSÍ, 17% í útbreiðslustyrk og 38% til sérsambanda og héraðssambanda ÍSÍ. UÍA fær í sinn hlut frá lottóskiptingu ÍSÍ árið 2015 6.451.632 kr.

UMFÍ fær út úr lottótekjum 141.500.000 kr. og samkvæmt skiptingu hjá UMFÍ fara 79% til sambandsfélaga, 14 % til UMFÍ og 7% í verkefna og fræðslusjóð. ÚÍA fær í sinn hlut 6.641.484 kr. frá UMFÍ.

Samtals eru þetta því um 13.000.000 miljónir króna til UÍA í lottótekjur sem skiptast svo eftir reglum sambandsins: 50% til UÍA (í rekstur), 10% til afreksmannasjóð, 40% til aðildarfélaga (sjá uia.is lottóreglur). Þessi 40% sem fara til aðildarfélaga skiptast svo þannig: 40% til höfuðfélaga (t.d. Þróttur Neskaupstað er höfuðfélag), 40% eftir iðkendum 17 ára og yngri og 20% jafnt til annarra félaga.

Nýjar reglur um úthlutun hjá UÍA

Þróttur Neskaupstað fær því nálægt 600.000 kr. í lottótekjur á ári og skiptir það félaginu miklu máli að fá þessar tekjur inn í reksturinn. Á ársþingi UÍA árið 2015 tóku gildi nýjar lottóreglur sem gera ráð fyrir að til þess að félag fái lottópening til sín þurfi félagið að standa í skilum við ÍSÍ með starfsskýrslur, að búið sé að halda aðalfund og að 1/3 hluti fulltrúa séu mættir á UÍA þing.

Þessar nýju lottóreglureglur er að mati undirritaðs nokkuð góðar og eiga að tryggja þátttöku á þing og að félag þarf að vera starfandi til að fá lottótekjur. Það sem undirritaður er ekki sáttur með er að ef einn þátt af þessum þremur vantar þá fær félagið ekki lottó greitt. Það er að mati undirritaðs sanngjarnara að í staðinn fyrir að félagið fái ekki neitt, að það fái hlutfalslega skerta fjárhæð eftir því hvað mikið vantar af gögnum eða þingfulltrúum.

Til að skýra þetta betur þá þurfa öll félög innan UÍA hafa á að fá lottótekjur til sín í reksturinn og ekki ástæða til að skerða þær nema af illri nauðsyn, það er vegna algjörs sinnuleysis eða félagið sé ekki starfandi. Það er oftast eitthver skýring fyrir því að félög geta ekki efnt þessi atriði.

Það sem kom undirrituðum á óvart var þegar þingfulltrúar fóru að benda okkur á það væri í lagi að fá einhvern fulltrúa á staðnum til þess að mæta fyrir okkur og skrá hann á kjörbréfið og að hann þyrfti bara að var á staðnum fram yfir nafnakall. Þetta finnst manni ekki alveg vera í lagi og verða að breyta. Tillögur sem lagðar voru fram á fundinum náðu ekki fram að ganga enda stuttur fyrirvari en það er full ástæða til að skoða þetta betur.

Sérsamböndin taka lottóið til baka

Þá að öðru og það er hvernig sérsambönd eru farinn að mjólka grasrótarfélöginn með skattlagningu í gegnum skráningu í Felix sem er félagaskráningarkerfi sem ÍSÍ heldur utan um félaga og iðkendur í íþróttahreyfingunni. Sunddeild Þróttar borgar 280.000 kr. til Sundsambands Íslands sem rukkar 2.800 kr. á iðkanda í félaginu. Felix-kerfið er ekki þægilegt kerfi í notkun og nýtt fólk sem hefur verið valið til stjórnunarstarfa á erfitt með að setja sig inn í kerfið til þess að skrá inn í það eða henda út úr því.

En sérsamböndin nýta sér þetta kerfi til að innheimta aðildargjöld til að standa undir sínum rekstri og þau spyrja ekki að því hvort að þetta séu réttar tölur heldur senda bara rukkun og eru illviðráðanleg að breyta þeim kröfum, þó að augljóslega séu vitlausar skráningum um að kenna í sumum tilfellum.

Stríðið er held ég rétt að byrja hjá félögunum við sérsamböndin með þessa skattlagningu í gegn um þetta félagaskráningarkerfi ÍSÍ. Fleiri sérsambönd hafa látið vita af því að til standi að rukka í gegn um Felix og setja skatt á deildir/félög sem eru í viðkomandi sérsambandi.

Þannig höfum við frétt að Blaksambandið hyggist gera þetta, sem og Skíðasambandið sem afnemi þátttökugjöld í mótum en taki þetta fyrirkomulag upp. Nokkur sérsambönd sem rukka eftir Felix eins og Frjálsíþróttasamband Íslands og Sundsambandið.

Það er í sjálfu sér ekkert að því að sérsambönd nái sér í tekjur með þessu fyrirkomulagi ef þetta eru upphæðir sem stillt er í hóf og að það komi til eitthver þjónusta á móti. En það fer því miður lítið fyrir því að við sjáum eitthvað af starfsmönnum eða stjórnarmönnum héraðssambanda, sérsambanda, UMFÍ eða ÍSÍ hér út á landsbyggðinni og frekar að við séum endilega beðinn að kíkja við ef við erum í bæjarferð. Það vill nefnilega brenna við að þessi regnhlífasamtök frá ÍSÍ og UMFÍ niður í sérsamböndin og héraðssamböndin taka til sín stóran hluta af lottóinu án allra skuldbindinga.

Flókin og dýr ferðalög

En hér er verkefni fyrir okkur að vinna. Ríkið leggur um 85 milljónir króna í ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ. Þessir fjármunir eru allt of litlir miðað við þann mikla kostnað sem ferðalöginn eru fyrir félöginn. ÍSÍ, UMFÍ og sérsamböndin verða að beita sér fyrir því að fá þetta framlag hækkað og bregðast með einhverjum hætti við óásættanlega háum ferðakostnaði og takmörkuðu sætaframboði á flugi til keppnisferða.

Til að nefna þá eru blakliðinn okkar að keppa í úrslitum þessa daganna og lítil fyrirvari á því hvar og hvenær þessir leikir eru. Þar af leiðandi fæst ekki flug vegna þess að sætaframboð er svo takmarkað að ekki er víst að menn komist heim strax eftir leik og þá sjaldnast á ÍSÍ fargjaldi heldur 30% hærra gjaldi.

Þá eru gistiaðstaða fyrir íþróttafólk í höfuðborginni ekki lengur í boði, en bæði ÍSÍ og UMFÍ ráku gistiaðstöðu sem stóð íþróttafélögum til boða um árabil. Því var hætt og nú er einungis gisting í boði á uppsprengdu verði.

Undirritaður gegnir starfi formanns íþróttafélagsins Þróttar Neskaupstað sem er félag með 6 deildir. Starfandi eru blakdeild, knattspyrnudeild, skíðadeild, sunddeild, karatedeild og frjálsíþróttadeild. Við tökum þátt í sameiginlegum rekstrarfélögum í Fjarðabyggð eins og Skíðafélagi Fjarðabyggðar, Knattspyrnufélagi Fjarðabyggðar (KFF), yngri flokkum Fjarðabyggðar í knattspyrnu svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægur stuðningur við starfið okkar kemur frá okkar stærstu styrktaraðilum sem eru Síldarvinnslan, SÚN og sveitarfélagið Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.