Lýðræðið fótum troðið í Norðausturkjördæmi
Bernharð Arnarson hefur ákveðið að draga framboð sitt á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi til baka en hann bauð sig fram í 5. – 8. sæti. ,,Ástæðan er ólíðandi framganga stjórnar Kjördæmasambands Norðausturkjördæmis sem studd er af landsstjórn flokksins. Ákvarðanir þær sem stjórnirnar hafa tekið undangengna daga eru í slíkri andstæðu við öll réttlætis- og jafnræðissjónarmið að annað eins er fáséð og alls ekki í anda eða samkvæmt gildum Framsóknarflokksins," segir Bernharð.
,,Augljóst er að stjórn kjördæmasambandsins gerir allt til að tryggja stöðu ákveðinna frambjóðenda umfram aðra.
Stjórn kjördæmasambandsins hefur með ákvörðunum sínum sýnt fram á algjört vanhæfi sitt við undirbúning alþingiskosninga og verður því að draga í efa öll störf þeirra."
Virðingarfyllst
Bernharð Arnarson
--------------------------------
ÁLYKTUN
Vegna fjöldaáskorana óska undirrituð framsóknarfélög í Norðausturkjördæmi eftir utankjörfunda atkvæðagreiðslu vegna kjördæmaþings sem áætlað er að fari fram þann 15. mars næstkomandi á Egilsstöðum. Ástæðurnar eru aðallega þessar:
- Kjördæmið mjög víðfemt
- Eldri framsóknarmenn í kjördæminu sem áhuga hafa á að taka þátt í vali á framboðslista treysta sér margir hverjir ekki til að leggja í langferðir í vetrarfærð þeirri sem nú ríkir.
- Einróma vilji var til þess á nýliðnu kjördæmisþingi að gefa sem flestum möguleika á að taka þátt í vali frambjóðenda á lista fyrir alþingiskosningarnar. Því er mikilvægt að útiloka ekki aðila sem af einhverjum ástæðum geta ekki ferðast um langan veg hvort sem því veldur fjárskortur eða einfaldlega heilsufarsástæður.
- Til að mynda rúmir 300 km frá Ólafsfirði á Egilsstaði og nálægt 400 km sé miðað við Egilsstaðir-Siglufjörður en slíkar vegalengdir takmarka eðli máls samkvæmt mjög möguleika þeirra efnaminni til að sækja kjördæmaþingið.
Útfærsla atkvæðagreiðslunnar þyrfti ekki að vera flókin og mætti telja eðlilegt að aðildarfélögin á svæðinu hefðu umsjón með henni í samráði við stjórn kjördæmasambandsins og landsstjórn.
Ekki verður séð af lögum Framsóknarflokksins að neinar lagalegar hindranir séu í vegi þess að bjóða upp á utankjörfundar atkvæðagreiðslu sem hér er óskað. Þá er slíkt fyrirkomulag rótgróið í íslensku lýðræði og þykja sjálfsögð réttindi í almennum kosningum.
Það er einlæg ósk þeirra sem standa að þessari ályktun að orðið verði við áskorun þessari enda um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þá félagsmenn er minna mega sín í samfélaginu, sérstaklega í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem ríkja í íslensku samfélagi í dag.