Markvissar aðgerðir til að bæta umsýslu jarða og landnýtingu

Þingflokkur Framsóknar setur jarðamál í forgang á þessu þingi með þingsályktunartillögu og með frumkvæði að reglulegri umræðu um jarðir og landnýtingu í þingsal.

Í tillögunni eru tilgreindar 7 aðgerðir sem ætlað að styrkja núverandi lagaumgjörð og reglur um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á Íslandi og styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Markmiðið er að skapa fleiri tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli, fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar, matvælaframleiðslu og nýsköpunar. Tillagan fellur vel að markmiði ríkisstjórnarinnar um skýrari lagaramma fyrir jarða- og landaviðskipti og að framkomnu frumvarpi um minnihlutavernd í veiðfélögum.

Hraða þarf flokkun landbúnaðarlands

Nauðsynlegt er að hraða gerð leiðbeininga um flokkun á landbúnaðarlandi svo sveitarfélög geti sett markmið um ráðstöfun lands í skipulagsáætlanir sínar. Þannig verði skýrt hvaða land sé ætlað til landbúnaðar og hvað til annarra nota. Einnig væri mögulegt að skilgreina hvar hægt sé að gera kröfu um heilsársbúsetu, t.d. á grundvelli innviða eins og vega, rafmagns og ljósleiðara. Framsókn vill endurskoða löggjöf sem nær yfir skráningar á landeignum og eignarmörkum. Landeignaskrá með hnitsettum eignarmörkum er forsenda þess að hægt sé að fylgja eftir reglum um ráðstöfun landeigna, en lög um skráningu lands gera ekki ráð fyrir tölvum og nútímamælitækni.

Kæruleysi eða samstilltir kraftar

Umræðan um jarðamál kemur reglulega upp, einkum í tengslum við jarðakaup fjársterkra erlendra aðila. Það er löngu orðið tímabært að taka heildstætt á jarðamálum á Íslandi og samhæfa verkefni ólíkra stjórnvalda. Liður í því er að samhæfa lög, reglur og verklag á þessu sviði. Reglurnar þurfa að taka mið af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist. Við lítum svo á að gengið hafi verið lengra í að opna heimildir til kaupa á landi en skuldbindingar Íslands gagnvart EES samningnum gera ráð fyrir. Stjórnvöld þurfa að taka grundvallarákvörðun um hvernig þessum málum skuli háttað nú og til framtíðar. Einnig þarf að vinna að því að skilyrði leyfa verði skýr, nákvæm og gagnsæ.

Land er dýrmæt auðlind

Í núverandi lagaumhverfi geta rúmlega 500 milljón manns keypt land og aðrar fasteignir á Íslandi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Nágrannaþjóðir okkar hafa sett mun meiri hömlur á ráðstöfun fasteigna og aðilaskipti en Ísland. Í Danmörku þurfa t.d. einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í landinu, eða hafa búið þar í tiltekinn tíma að fá leyfi dómsmálaráðuneytisins til að öðlast fasteignaréttindi. Með því að gera jarðakaup leyfisskyld er hægt að tryggja nauðsynlega aðkomu ríkis og sveitarfélaga að eigendaskiptum jarða til að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga.
thorarinn ingi petursson

Framsókn leggur til að gerð verði krafa um að kaupandi lands búi á Íslandi, hafi búið þar í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu. Áhersla er lögð á að tilgangur jarðakaupanna þurfi að vera skýr. Margskonar markmið sem styrkja búsetu og samfélög geta fallið þar undir, s.s. búfjárrækt, uppbygging gróðurauðlindar, landfrek atvinnustarfsemi eða nýsköpun byggð á sérstöðu viðkomandi jarðar eins og menningarverðmætum eða náttúru. Lykilatriði er að sveitarfélög og ríkisvald fái aðkomu að ráðstöfun lands en aðgerðaráætluninni er ætlað að tryggja það. Regluverkið þarf að vera það sveigjanlegt að hægt sé að bregðast við ólíkum aðstæðum í byggðarlögum og landshlutum. Miklir almannahagsmunir eru í húfi og því þarf að vanda til verka.

Höfundar eru þingmaður og varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.