Megum við fá meira að heyra?

Sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að hlú að fólki með góðar hugmyndir. Hér á Austurlandi úir og grúir af slíku fólki. Hugmyndirnar eru sumar hverjar hrein snilld og borðleggjandi, aðrar eiga lengra í land en samt fullan rétt á sér.

1386-0803-1112-1555.jpg

Hlutverk Þróunarfélags Austurlands í að hjálpa austfirskum frumkvöðlum og hugmyndasmiðum áleiðis er einkar mikilvægt. Ég kannast við manneskju sem kom þangað fyrir fáeinum misserum með góða hugmynd og fékk yndælar og fagmannlegar móttökur. Hún var lestuð með allrahanda pappírum til að sækja fjármagn í hugmyndina og svo ýtt fallega út úr dyrunum. Hún fór heim með alla pappírana og þar féllust henni hendur. Þar með strandaði hugmyndin. Ég þekki aðra manneskju með ekki síðri hugmynd, sem var studd með ráðum og dáð uns hún komst vel af stað með sitt.

(Munið þið eftir frístundagarðinum á Fljótsdalshéraði, sem allt ætlaði að verða vitlaust út af hér um árið og tugmilljónir voru lagðar í? Í hvaða skúffu ætli hann sé núna? En þetta var nú útúrdúr).

 

Ég hygg að mikið álag sé á Þróunarfélaginu. Að þurfa greina hvaða hugmyndir eru lífvænlegar og jarða hinar á kurteislegan máta. Að halda í höndina á hugmyndasmiðunum, passa að eldmóður þeirra brenni þá ekki til ösku og jafnframt stappa í þá stálinu þegar örðugt er um vik. Að finna réttan og greiðan farveg fyrir hugmyndir og fólk. Og eiga stöðugt frumkvæði að öllum sköpuðum hlutum. Þetta er mikið ábyrgðarhlutverk.

 

Ég hef sterklega á tilfinningunni að þorri íbúa Austurlands viti mest lítið um hvað Þróunarfélagið er að gera svona dags daglega. Líklega þó aðeins meira í dag en í gær, en lengst af hefur starfsemin ekki farið hátt nema síður sé.  Svo mikið er þó víst að starfsmenn þar eru á þönum alla daga um fjórðunginn við að liðsinna góðum verkefnum sem talið er að geti haslað sér völl í samfélaginu.  Verkefnin sem renna í gegnum Þróunarfélagið og Vaxtarsamning Austurlands eru til dæmis tengd matvælaafurðum úr héraði, markaðssetningu samgöngumannvirkja, þróun austfirsks handverks, ferðaþjónustu- og fræðasetrauppbyggingu, menningu í víðasta skilningi og menntun og framþróun menntunarkosta fyrir almenning. Síðast, en aldeilis ekki síst, hefur Þróunarfélagið lagt hart að sér við að tengja fólk í starf að sameiginlegum markmiðum.

 

Við erum mörg orðin pínulítið þreytt á hugtökum eins og nýsköpun, vaxtarsprotum og frumkvöðlastarfi. Það tengist held ég útrásarþreytu. Það er ekki haldin sú ræða eða það ávarp eða flutt sú frétt að þessum hugtökum sé ekki hnýtt við allt mögulegt.  Samkvæmt mínum upplýsingum raungerast þau þó víða í verkefnum Þróunarfélagsins  og  það með afgerandi hætti. Ýmislegt fróðlegt um það má til dæmis lesa á vefsíðu félagsins, www.austur.is. Sömuleiðis í  bæklingi sem félagið gaf út í tilefni af 25 ára afmæli sínu í fyrra. En mættum við fá meira að heyra?

 

Ég skora hér með á Þróunarfélagið að segja okkur á hnitmiðaðan máta frá verkefnum sínum. Hver þeirra hafi tekist og hver mistekist. Til hvers þau sem vel tókst til með hafi leitt. Sum hafa auðvitað brotlent eins og gengur. Önnur hafa ábyggilega skilað betra Austurlandi.

 

                                                                                                                             Steinunn Ásmundsdóttir

(Leiðari Austurgluggans 15. janúar sl.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar