Menntun og samgöngur

Mig langar hér til að velta fyrir mér sameiningarhugmyndum sveitarfélaganna fjögurra út frá skólamálunum. Aðallega leik- og grunnskólunum en einnig öðrum skólagerðum.

Í raun og veru veit ég ekki frekar en aðrir hvort að það sé betra að sameinast eða ekki. Ég veit hinsvegar, að sameining er í sjálfu sér bara orð. Hugsjónir og framkvæmdir í kjölfar sameiningar myndu leiða í ljós hvort að niðurstöður kosninganna leiddu til góðs eða ekki.

Að mínu viti þá er okkur í skólunum í hverju sveitarfélagi fyrir sig, ómögulegt að bjóða upp á allt það sem aðalnámskrá og lög boða varðandi menntun barna, ef við vinnum einangruð og ekki í tengslum við nærsamfélagið, skólana í kring um okkur, fólk og sérfræðinga um allt land og jafnvel við útlönd.

Þess vegna höfum við langflest ef ekki öll, tamið okkur að sinna okkar störfum bæði ein og sér innan hvers skóla, sem og í vináttu og góðu samstarfi milli stjórnenda og annars starfsfólks á milli skólanna í kring um okkur, við Skólaskrifstofu Austurlands og félagsþjónustuna á svæðinu einnig. Í flestum skólum á sér þannig stað samvinna vítt og breytt. Mín reynsla er að við sem störfum að þessum málflokkum fjölskyldnanna finnum afskaplega oft, að eitt af því sem tefur okkur í að leysa málin, eða hindrar okkur í að sinna okkar verkefnum eru vegalengdirnar sem á milli eru og því skipta góðar samgöngur mjög miklu máli fyrir okkar störf. Hluti af hindrunum þeim tengdum, hefur reyndar með veðrið að gera, en því stjórnum við nú ekki frá degi til dags.

Ég sé fyrir mér að samstarf skólafólks geti þroskast enn frekar undir metnaðarfullri menntunarstefnu fyrir svæðið. Um mikilvægi þess að hver og einn skóli styrki sín sérkenni hefur verið rætt í aðdraganda þessara kosninga, og er það vel. Það sem ég bind þó helst vonir við er að það verði ákveðinn jöfnuður á milli skólanna. Jöfnuður þannig að þeir geti vaxið á sínum forsendum. Jöfnuður varðandi aðstöðu og aðbúnað einnig og ekki síst að fólk geti valið sér skóla til að vinna í og skóla fyrir börnin sín eftir áherslum skólanna. Það síðastnefnda er reyndar hrein óskhyggja þar til bragarbót verður gerð á samgöngum á svæðinu. Það skiptir því máli í mínum huga að ef af verður, þá verði róið að því öllum árum að allar umræddar samgöngubætur sem nú er veifað sem loforði framan í íbúa þessa svæðis komi eins fljótt og auðið er.

Einangrun vegna viðhorfa okkar, einangrun vegna ónægs fjármagns, einangrun vegna fólksfæðar eða einangrun vegna fjarlægða og samgangna gerir möguleika okkar til lausna á verkefnum skólanna verri. Með bættum samgöngum má minnka áhrif vegalengda, færðar og veðurs á möguleika okkar til árangurs, því að bættar samgöngur gera okkur öllum, ekki eingöngu okkur í skólunum, betur kleift að sinna okkar hlutverki í samvinnu við þá sem við þurfum á að halda. Bættar samgöngur gera foreldrum betur kleift að sinna sínu hlutverki gagnvart börnunum, sem er að styðja börn sín til að efla hæfileika sína og þroska á allan hátt, við hæfi barnanna. Með öllum ráðum verður að tryggja þennan grunn.

Sameining í þágu bættrar menntunar, atvinnutækifæra, nýsköpunar, samvinnu og þjónustu, aukinnar framsækni og samgöngubóta er hugmynd sem vert er að gefa gaum og kjósa með, að öðrum kosti verður sameining ekki eins mikils virði, frá mínum bæjardyrum séð. Aðstæður okkar hér fyrir austan kalla í öllu falli ávallt á samvinnu, skapandi hugsun og hugrekki til að fara nýjar leiðir.

Höfundur er skólastjóri Seyðisfjarðarskóla

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar