Metfjöldi þátttakenda og góður árangur á Andrésar Andarleikunum

Félagar í Skíðafélagi og Brettafélagi Fjarðabyggðar ljúka skíðavertíðinni ár hvert og fagna sumarkomu á Andrésar Andarleikunum í Hlíðarfjalli á Akureyri. Leikana er óþarfi að kynna en þar koma sama skíðaiðkendur á grunnskólaaldri frá öllu landinu. Keppt er í leikjabraut, svigi, stórsvigi, göngu, brettakrossi og brettastíl. Í stjörnuflokki keppa svo fatlaðir eða hreyfihamlaðir skíðamenn og átti Fjarðabyggð þátttakanda í stjörnuflokki í ár.


Stærsti hópurinn frá Fjarðabyggð

Þetta árið lék veðrið við keppendur og stemmningin í fjallinu var ólýsanleg alla dagana. Úr Fjarðabyggð komu 79 þátttakendur sem var einn stærsti hópur iðkenda á leikunum og er það til marks um hversu öflugt starfið er í félögunum. Hópurinn sem fagnaði sumarkomu í Hlíðarfjalli var þó öllu stærri, en alls voru 180 þátttakendur og fylgdarmenn úr Fjarðabyggð og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Í fyrsta sinn voru keppendur frá Fáskrúðsfirði með í hópnum.

Fimm Andrésarmeistarar

Megináherslan er lögð á að vera sama með fjölskyldu og æfingafélögum og skíða alla dagana. Alla jafna keppa þátttakendur í tvo daga og eiga frí einn dag, en fæstir láta sig vanta í fjallið á frídeginum. Samkenndin er mikil og sameiginlegt nesti skapar góða stemmingu í fjallinu. Árangurinn í ár var góður. Fjarðabyggð státaði af fimm Andrésarmeisturum, tveimur úr Skíðafélaginu og þremur úr Brettafélaginu. Halldóra Birta Sigfúsdóttir er Andrésarmeistari í svigi 14 ár og Hrefna Lára Zoëga í stórsvigi 7 ára. Bergdís Steinþórsdóttir er tvöfaldur Andrésarmeistari í brettakrossi og brettastíl 9-10 ára og Bjarney Linda Heiðarsdóttir í brettakrossi 14-15 ára. Alls komust iðkendur úr Fjarðabyggð 24 sinnum á pall.

Stubbaskólinn smitberi skíðabakteríunnar

Hápunktur verðlaunaafhendingarinnar er þegar yngstu hóparnir koma á svið og taka við þátttökubikar. Einn stærsti hópur yngri barna kom úr Fjarðabyggð í ár eins og stundum áður. Þennan mikla áhuga yngri barna má án efa þakka Stubbaskólanum í Oddskarði sem Jenný Jörgensen stendur fyrir þar sem margir stíga sín fyrstu spor á skíðum og smitast jafnharðan af bakteríunni. Með svona öflugan hóp ungra iðkenda er ljóst að framtíðin er björt.

Æft og safnað allan veturinn

Andrésar Andarleikarnir eru ógleymanleg skemmtun og lífsreynsla sem flestir vilja upplifa aftur og aftur. Iðkendur hlakka til þessa viðburðar allt árið og leggja mikið á sig við æfingar og fjáröflun allan veturinn til þess að komast á leikana. Þátttaka svo öflugs skíðahóps sem raun ber vitni væri ekki gerleg án öflugra styrktaraðila og góðrar aðstöðu í Oddsskarði. Þökkum við rekstraraðilum Oddsskarðs fyrir gott samstarf í vetur og öllum styrktaraðilum fyrir að gera okkur kleift að stunda skíðaíþróttina og sækja skemmtileg mót.

Framtíðin er björt. Ungir iðkendur úr Fjarðabyggð stoltir með þátttökubikarinn. Mynd: Oddný Friðriksdóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.