Mikil hálka á vegum
Vegagerðin varar vegfarendur við hálku, hálkublettum og snjóþekju. Flughált er á Jökuldal, Borgarfjarðarvegi og Breiðdalsheiði og sömuleiðis á Fjarðarheiði. Spáð er ágætu veðri á Austurlandi á morgun, hálfskýjuðu, einhverri úrkomu og hægum vindi frá suðaustri.
Í gær voru veður heldur válynd í fjórðungnum. Fokkerflugvél Flugfélags Íslands lenti í miklum vindstreng þegar hún kom inn til lendingar um hádegisbil og fór allt lauslegt af stað í farangursrýminu. Ellefu farþegar vélarinnarvoru heldur óttaslegnir og þurftu tveir þeirra aðhlynningu vegna smávægilegra meiðsla eftir lendingu.
Þá fór björgunarsveitin Bára á Djúpavogi í útkall á Öxi seinnipartinn í gær þar sem þurfti að losa bifreið tveggja erlendra ferðamanna, sem ekki höfðu áttað sig á merkingum um að leiðin væri ófær. Björgunarsveitin hefur farið fram á að Vegagerð og lögreglan kanni hvort unnt sé að loka veginum þannig að bifreiðar komist ekki inn á hann, þar sem vegfarendur virði ekki lokunarmerkingar.