Mikilvægi sjávarútvegsins

erla_ragnarsdottir_xd.jpg

Eitt af mikilvægustu málum komandi kjörtímabils er að efla atvinnulífið og í hugum okkar sjálfstæðismanna þarf að sækja fram á öllum sviðum þess. Það er afar brýnt að lækka skatta, ýta undir öflugt einkaframtak og nýsköpun, jafnframt því að afnema gjaldeyrishöftin. Grunngildi flokksins kristallast í þessum hugmyndum okkar; við berum virðingu  fyrir einstaklingsframtaki, samhjálp borgaranna og atvinnufrelsi. Í þessu samhengi ber að huga sérstaklega að einni af grunnatvinnugrein okkar; sjávarútveginum.

 

Stöðugt rekstrarumhverfi er öllum atvinnurekstri mikilvægt, ekki síst sjávarútvegi, sem er í eðli sínu sveiflukenndari en önnur atvinnustarfsemi og tekjur hans ráðast ekki af almennu efnahagsástandi og kaupmætti. Sveiflur í stærð okkar helstu nytjastofna bætast við þá áhættu sem „hefðbundin“ fyrirtæki þurfa að glíma við. Sjávarútvegurinn er í senn fjármagnsfrekur og rekstur hans áhættusamur. Þess vegna er nauðsynlegt að greinin búi við stöðugleika, en lagumhverfi hennar, þar með talin skattheimta, taki ekki breytingum eftir því hvernig vindarnir blása.

Álögur á íslenskan sjávarútveg verður að endurskoða. Sjávarútvegur á eins og aðrar atvinnugreinar að  greiða sanngjarnt gjald fyrir að nýta sameiginlegar náttúruauðlindir, en í mínum huga ber að hverfa frá hinu svokallaða sértæka veiðileyfigjaldi, enda hefur það torveldað æskilegt viðhald framleiðslutækja og staðið í vegi fyrir mikilvægum fjárfestingum til framtíðar. Almennt séð er fiskiskipastóllinn orðinn alltof gamall og brýn þörf á endurnýjun. Þessa fjárfestingu hefur sjávarútvegurinn hins vegar sett á bið á meðan óvissan í lagaumhverfi greinarinnar hefur verið algjör.

Íslendingar eru í hópi öflugustu fiskveiðiþjóða heims og á mælikvarða verðmætis afla úr sjó erum við mjög ofarlega. Hins vegar er Ísland mun neðar á sama lista þegar kemur að verðmætasköpun í útgerð á alþjóðlegu hafsvæði. Útgerðir á Íslandi veiða að stórum hluta á heimamiðum. Vinir okkar Færeyingar sem og flestar aðrar fiskveiðiþjóðir í Evrópu, veiða mun hærra hlutfall af sínum afla utan sinnar landhelgi. Í þessari staðreynd leynast hugsanlega sóknarfæri fyrir íslenskan sjávarútveg. Því ber að skoða skattaumhverfi og gjöld þeirra skipa sem stunda veiðar utan landhelgi Íslands. Slíka starfsemi á að hvetja til dáða og efla með öllum tiltækum ráðum með það að markmiði að skila landi og þjóð aukunum tekjum.

Höfundur skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.