Mikilvægir sigrar
Fjarðabyggð og Höttur unnu í gær mikilvæga sigra í 1. og 2. deild karla í knattspyrnu. Huginn er kominn í úrslit þriðju deildar og Sindri er við þröskuldinn. Höttur er kominn í úrslit 1. deildar kvenna.
Sveinbjörn Jónasson skoraði eina markið í 0-1 sigri Fjarðabyggðar á KS/Leiftri. Það kom úr aukaspyrnu strax á tíundu mínútu þar sem Sveinbjörn skaut boltanum yfir varnarvegginn og í nærhornið af tæplega 30 metra færi. David Hannah og Elvar Jónsson stýrðu liðinu í gær og gera það trúlega út leiktíðina. Fjarðabyggð er í sjötta sæti með 19 stig, átta stigum frá fallsæti. Fjarðabyggð á heimaleik á þriðjudag.
Tómas Arnar Emilsson og Þórarinn Máni Borgþórsson skoruðu mörk Hattar sem vann 1-2 útisigur á Tindastóli, sitt í hvorum hálfleik. Heimamenn jöfnuðu í 1-1. Höttur hefur eftir leikinn 19 stig í 6. sæti. Liðið hefur rifið sig lítillega frá neðstu liðunum þó staðan geti breyst snögglega.
Huginn tryggði sér sæti í úrslitakeppni þriðju deildar karla með 2-3 sigri á Dalvík/Reyni. Friðjón Gunnlaugsson, Birgir Hákon Jóhannsson og Brynjar Skúlason skoruðu mörk Hugins sem lenti tvisvar undir í leiknum.
Stórtíðindi þarf til að Sindri, sem í gær vann Leikni 1-2, fylgi Huginn ekki í úrslitakeppnina. Sindri hefur 18 stig en Leiknir í þriðja sæti 12 stig. Leiknir á tvo leiki eftir svo liðið getur náð Sindra að stigum. En átta mörkum munar í markahlutfalli og Sindri má ekki fá eitt stig til viðbótar. Kristinn Þór Guðlaugsson og Emir Murtic skoruðu mörk Sindra en Uche Asika mark Leiknis.
Höttur tryggði sér sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna með 1-2 sigri á Sindra í fyrra kvöld. Elísabet Sara Emilsdóttir kom Hetti yfir á 26. mínútu en fjórum mínútum fyrir leikslok jafnaði Lejla Cardaclija. Sigríður Baxter tryggði Hetti sigurinn með marki mínútu fyrir leikslok.