Mikilvægustu málin
Stjórnmálaumræða síðustu vikur og mánuði hefur verið þung, tekist hefur verið á og málefnaleg umræða hefur oft verið sett til hliðar.
Við verðum að vera tilbúin að leggjast öll á árar í því að horfa á stöðuna til lengri tíma og vinna saman að því að byggja upp að nýju. Hér eru engar skyndilausnir í boði, það reynir á að við sýnum samstöðu og trúum á það verkefni sem framundan er.
Mesta kjarabót sem heimili landsins geta búið við er að hér verði stöðugleiki til lengri tíma, hér fjölgi störfum, hér lækki skattar og vöruverð þannig að meira verði eftir af þeim launum sem við öflum um hver mánaðamót. Aukinn hvati verði hjá fyrirtækjum til að ráða starfsfólk og fjárfesta og þannig skili sér á endanum meiri tekjur til ríkissjóðs.
Fyrrverandi landlæknir sagði fyrir stuttu að heilbrigðiskerfið væri ekki komið fram á brúnina heldur væri það komið fram af henni. Þetta eru fullyrðingar sem full ástæða er til að taka alvarlega.
Forgangsröðun þarf að vera skýr og afdráttarlaus. Eins og staðan er núna er ekki í forgangi að byggja nýtt hús, það á að vera í forgangi að efla heilsugæsluna í landinu og þá nærþjónustu sem íbúar þessa lands stóla á daglega. Vissulega þarf að fjárfesta og viðhalda nauðsynlegum tækjabúnaði og stöðva þarf útflutning starfsfólks úr heilbrigðiskerfinu til nágrannalandanna.
Eitt lítið dæmi um forgangsröðun og tilfærslu fjármagns er uppsetning náttúrugripasafnsins í Perlunni. Uppsetning á þeirri sýningu kostar 500 milljónir, árlega kostar síðan 185 milljónir að reka sýninguna.
Til samanburðar kostar heilbrigðisþjónusta á Akureyri, sem stöðugt á undir högg að sækja, sambærilega upphæð. Læknaþjónusta sem búið er að leggja niður á Borgafirði eystri kostaði 600 þúsund krónur árlega og enn eru rúmlega 40 læknalausir dagar á Vopnafirði og rúmlega 60 á Djúpavogi.
Með því að koma stefnu Sjálfstæðisflokksins til framkvæmda verður horfið af braut rangrar forgangsröðunar í ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði, hallarekstur verður stöðvaður og skuldir ríkissjóðs greiddar niður í stað þess að safna nýjum.
Sýnum ábyrgð og samstöðu þann 27. apríl þegar við göngum til kosninga. Setjum X við D og kjósum skynsamar og raunhæfar leiðir með hag okkar allra að leiðarljósi.
Höfundur skipar 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.