Miklir glæpamenn erum vér

Smári Geirsson fyrrverandi formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Þorvaldur Jóhannsson framkvæmdastjóri sambandsins skrifa:

Í síðasta tölublaði Austurgluggans birtist grein eftir Dr. Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor sem ber yfirskriftina Frá velsæld til vesældar. Í greininni fjallar prófessorinn um þá efnahagskreppu sem nú herjar og tekur sér fyrir hendur að útskýra orsakir hennar.

Niðurstaða prófessorsins er sú að “kveikiefnið” sem hratt af stað styrkingu krónunnar sem orsakaði ofvöxt og síðan hrun bankanna hafi verið stórframkvæmdirnar á Austurlandi. Hann skrifar einnig um að talsmenn sveitarfélaga á Austurlandi hafi gengið fram með “nokkru offorsi og látum” í baráttu sinni fyrir umræddum stórframkvæmdum og þeir hafi kallað þá “óvini Austurlands” sem dirfðust að spyrja spurninga um efnahagslegar forsendur framkvæmdanna.

Hann segir að þessir ofurkappsömu sveitarstjórnarmenn hafi talið að ef álver risi við Reyðarfjörð yrði búseta á Austfjörðum tryggð um næstu áratugi en gefur í skyn að hagsmunir þeirra svæða fjórðungsins sem séu utan áhrifasvæðis álversins hafi verið fyrir borð bornir. Þá bendir hann á að lækkandi álverð muni halda aftur af launaþróun starfsmanna álversins þó svo að launin haldist tiltölulega há miðað við aðra vinnustaði á svæðinu. Þannig gefur hann í skyn að sjávarútvegur geti vart þrifist í nágrenni við álverið vegna smitáhrifa frá launum í álverinu. Niðurstaða hans hvað þetta varðar er að framkvæmdirnar á Austurlandi muni ekki hafa nein teljandi áhrif á búsetuþróun í landshlutanum til lengri tíma litið.

Þá höfum við það. Frumorsök kreppunnar liggur ekki hjá bönkunum, ekki hjá ríkisstjórninni eða í veikri krónu, ekki hjá Seðlabanka eða Fjármálaeftirliti og ekki í útrásinni margumtöluðu. Nei, frumorsökin liggur í virkjunar- og álversframkvæmdum á Austurlandi og á meðal helstu sökudólga eru austfirskir sveitarstjórnarmenn. Já, miklir glæpamenn erum vér.

Pólitísk gagnrýni

Dr. Þórólfur Matthíasson hefur lengi beitt sér gegn virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum hér eystra og hann er einn af þeim sem hefur mikla þörf fyrir að gagnrýna framkvæmdirnar þó svo að þær séu um garð gengnar og telja að þær orsaki allt illt sem gerist í samfélaginu. Gagnrýni Þórólfs hefur alla tíð verið af pólitískum toga en hann hefur hins vegar ávallt hampað fræðigrein sinni og prófessorstitli í þeirri von að orð hans yrðu trúverðugri í hinu pólitíska orðaskaki. Greinar Þórólfs eru oft á tíðum svipaðar þeirri sem birtist í Austurglugganum: Fullar af allskonar staðhæfingum sem oft bera vitni vanþekkingu á austfirskum aðstæðum og algerlega lausar við haldgóðan rökstuðning. Það er til dæmis eftirtektarvert að í greininni í Austurglugganum færir hagfræðingurinn engin talnaleg rök fyrir málflutningi sínum.

Við sveitarstjórnarmenn hér eystra, sem búum enn við skrif af þessu tagi, höfum aflað okkur nokkurra upplýsinga um hin efnahagslegu áhrif stórframkvæmdanna á íslenskt efnahagskerfi. Sú staðreynd virðist blasa við að efnahagslegu áhrifin eru miklu minni en gagnrýnendur framkvæmdanna vilja vera láta. Og því fer fjarri að frumorsök núverandi kreppu geti legið í framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál þó þar sé um viðamiklar framkvæmdir að ræða.

Minni áhrif

Á tímabilinu 2004-2007, eða á helsta framkvæmdatímabilinu eystra, var meðalinnflæði erlends fjármagns (nettó) til landsins um 214 milljarðar á ári eða um 1000 milljarðar á öllu tímabilinu. Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál kostuðu um 350 milljarða samtals. Þar af komu  einungis um 10-20% fjármagnsins inn í landið eða um 35-70 milljarðar. Þannig bárust 6-12 milljarðar erlends gjaldeyris á ári til landsins  vegna framkvæmdanna eystra. Obbinn af kostnaðinum vegna þessara framkvæmda fór nefnilega til kaupa á vélum og búnaði erlendis og kom því aldrei inn í landið í formi gjaldeyris. Þá ber að nefna að framan af var áætlað að 30% vinnuaflsins við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins yrði íslenskt en í reyndinni varð það aldrei nema um 10%. Áhrif umræddra framkvæmda urðu af þessum ástæðum í alla staði miklu minni á íslenskt efnahagslíf heldur en heildarkostnaður við framkvæmdirnar gæti gefið til kynna. Það sér hvert barn að 6- 12 milljarða árlegt innstreymi erlends fjármagns vegna framkvæmdanna vegur lítið þegar um er að ræða 214 milljarða árlegt heildarinnstreymi til landsins.

Skilar gjaldeyri

Það er alveg ljóst að dr. Þórólfur Matthíasson og samherjar hans verða að leita annað en til austfirskra stórframkvæmda til að skýra vöxt bankanna og efnahagshrunið. Hitt er annað mál að orkan frá Kárahnjúkum og álið frá Fjarðaáli skilar nú þjóðinni miklum gjaldeyri öfugt við ýmsar fjárfestingar sem ráðist hefur verið í nýverið og dr. Þórólfur hefur ekki fyrir að gagnrýna í sama mæli. Má í því sambandi minna á  að nú standa um 3000 íbúðir fullgerðar en ónýttar á höfuðborgarsvæðinu og þúsundir íbúða til viðbótar eru á byggingarstigi. Þá skal geta um allt verslunarhúsnæðið sem byggt hefur verið að undanförnu á höfuðborgarsvæðinu og kórónar það byggingaræði sem riðið hefur yfir samfélagið. Prófessorinn þarf nefnilega ekki að líta austur á land til að finna helstu orsakavalda kreppunnar. Hann ætti frekar að rifja upp þenslu- og fjárfestingarfarganið á sínum heimaslóðum og fara yfir þátt bankanna í innstreymi gjaldeyris til landsins með öllum þeim áhrifum sem því fylgja.

Álver sannar sig

Hvað varðar aðra þætti greinar prófessorsins er vert að koma eftirfarandi á framfæri: Það hefur ávallt verið ljóst að áhrifasvæði álversins næði ekki yfir allan fjórðunginn og því þyrfti áfram að leita leiða til að byggja upp atvinnulíf og mannlíf nyrst og syðst í honum. Tilkoma álversins hefur þegar sannað sig sem mikilvæg byggðaaðgerð. Í því sambandi má nefna að á árunum 2002-2008 má gera ráð fyrir að störfum í sjávarútvegi í Fjarðabyggð hafi fækkað um hátt í 300 en vegna tilkomu álversins hefur föstum íbúum sveitarfélagsins hins vegar fjölgað verulega og er enn að fjölga. Fækkun starfa í sjávarútvegi hefur ekkert með tilkomu álversins að gera heldur eru það aðstæður í atvinnugreininni sjálfri og mikil tæknivæðing sem hefur stuðlað að fækkun þeirra. Í núverandi kreppu eru það helst útflutningsfyrirtæki sem geta staðist þau áföll sem í henni felast. Bæði Fjarðaál og sjávarútvegsfyrirtækin eru útflutningsfyrirtæki og er full ástæða til að hafa minni áhyggjur af þeim en öðrum fyrirtækjum eins og til dæmis fyrirtækjum á sviði þjónustu eða verktakastarfsemi.

Við, sem ritum þessa grein, vorum í forsvari fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) þegar barist var fyrir umræddum stórframkvæmdum í landshlutanum. Það eru því líklega undirritaðir sem prófessorinn hefur helst í huga þegar hann fjallar um talsmenn sveitarfélaganna sem komu fram með “nokkru offorsi og látum” í baráttunni fyrir þeim. Og hugsanlega telur hann okkur eiga verulega sök á því að hafa lagt til ,,kveikiefnið” sem hratt kreppunni miklu af stað. Við vonum að hagfræðiprófessorinn endurskoði afstöðu sína í ljósi staðreynda og leiti uppi hina raunverulegu orsakavalda kreppunnar þar sem hann situr í höll sinna fræða í höfuðborginni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar