Millilandaflugvöllur á Akureyri er mikilvægur fyrir Norður-og Austurland

ingvi_rafn_ingvason_xd.jpg
Alþjóðlegur millilandaflugvöllur á Akureyri er mikilvægur fyrir bæinn og ekki síst allt Norður- og Austurland. Það styttir tíma á áfangastað og gefur okkur möguleika á að nýta flugvöllinn til atvinnuuppbyggingar og menningartengsla á svæðinu. 

Auk þess getum við farið til útlanda og aukið víðsýni okkar án þess að það kosti okkur einn flugmiða í viðbót eða 30.000 í bensín vegna þess að við þurfum að fljúga eða keyra til Keflavíkur. Iceland Express flaug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar síðasta sumar og vonandi heldur flugið áfram með tilkomu Wow-air. Það mætti prófa að fljúga milli Akureyrar og Kaupmannahafnar eða London að vetri til og ég skora á Icelandair að fljúga millilandaflug frá Akureyri allt árið.

Það óumdeilt að það er dýrt að fljúga með Flugfélagi Íslands t.d. til Reykjavíkur að ekki sé talað um Ísafjörð því þá þarf fyrst að fljúga til Reykjavíkur og þaðan til Ísafjarðar. Þetta er óhagkvæm flugleið og lítill markaður en hvað með þjónustu við fólkið í landinu. Ég vil huga að samgöngum á minni staði en fækka til dæmis þyrluferðum Landhelgisgæslunnar til að ná í rollur sem hafa týnst þar sem klukkutíminn á þyrlu kostar nokkur hundruð þúsund krónur.

Vaðlaheiðargöngin verða kærkomin viðbót fyrir okkur sem þekkjum það hvernig er að komast ekki landleiðina austur. Víkurskarð hefur verið lokað 18 daga í vetur. Það er augljóst að þeir sem veikjast eða þurfa á læknisaðstoð að halda fara ekki á sjúkrahúsið á Akureyri landleiðina heldur þarf flugvél ef líf liggur við. 

Auðvitað ætti fólkið sem veikist og býr í Þingeyjarsýslum eða á Langanesi að fara á sjúkrahúsið á Húsavík eða næsta stóra sjúkrahús á Egilsstöðum en það er ekki hægt því þar er bara lágmarksaðstaða til skurðaðgerða; engir sérfræðingar því það er of dýrt. En er ekki of dýrt fyrir samfélagið að missa fólk vegna þess að tíminn skiptir máli og það var ekki fjárhagslega hagkvæmt að hafa svona marga sérfæðinga á sama staðnum.

Margir vilja byggja sameinaðan stóran Landspítala. Ég er ekki einn af þeim. Af hverju ekki að bæta tækjakost á spítölunum sem fyrir eru og dreifa þeim frekar en að búa til einn ofurstóran spítala og senda alla þangað.

Á sama tíma eru of fáir sérfræðingar á minni stöðum og sjúkrahús vanbúin tækjum. Ekki veitir af að setja heilsugæsluna í gjörgæslu peningalega því það vantar heilsugæslulækna til starfa.

Þá er ekki úr vegi að minnast á hjúkrunarfólk sem er með um það bil 300.000 í mánaðarlaun, svipað og tónlistarkennari eða starfsmaður í verslun. 

Það stefnir í verkfall hjá hjúkrunarfræðingum ef ekkert breytist.

Ingvi Rafn Ingvason, tónlistarmaður Akureyri, óskar eftir þínum stuðningi í 2.-4. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar