Milljónir í forgjöf

gunnarg_web.jpg
„Ástæðan er fyrst og fremst sú að við búum langt frá Reykjavík og það er dýrt að sækja mót. Unglingar, sem kannski þurfa að láta sumarkaupið sitt endast allan veturinn, hafa hreinlega ekki efni á að taka sér frí úr vinnu eða kaupa sér útbúnað sem þarf, eins og t.d. góða íþróttaskó, hvað þá að borga tíu þúsund krónur í flugfar.“
 
Þessu svaraði frjálsíþróttaþjálfarinn Helga Alfreðsdóttir í samtali við Snæfell árið 1991 þegar hún var spurð að því hver væri helsta ástæða þess að krakkar gæfust upp í frjálsíþróttum. Stofna yrði ferðasjóð til að létta undir með þeim sem sæktu mót langt að: „Auðvitað eiga allir að sitja við sama borð í þeim efnum.“

Nýverið var undirritaður nýr samningur Íþrótta- og ólympíusambandsins og Flugfélags Íslands. Íþróttahreyfingin hefur oft notið velvilja flugfélagsins, bæði í ódýrari fargjöldum og styrkjum, en að þessu sinni hækka gjöldin um rúm 30%.

Slík hækkun er högg fyrir austfirskt íþróttalíf. Formaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar hefur bent á að félagið hafi bókað flug fyrir sex milljónir króna í sumar. Næsta sumar kostar það átta milljónir. Þá er ótalinn aksturs- og gistikostnaður.

Þessar milljónir þarf félagið að taka frá áður en hægt er að eyða í annað: búnað, aðstöðu, leikmenn. Mér er sagt að flestir leikmenn fyrstu deildar liðs Hattar fái ekki krónu í laun frá félaginu, ólíkt samkeppnisaðilum sínum.

Þetta er veruleiki hópíþróttanna. Höggið er ekki mildara fyrir einstaklingsgreinarnar. Minni greinar með minna bakland eiga enn erfiðra að afla styrkja. Fámennið þýðir líka að enn nauðsynlegra er fyrir þá sem ætla að ná árangri á því sviði að sækja keppnir út fyrir fjórðunginn.

Hvaða áhrif hefur þetta hefur á möguleika okkar á að halda mót? Unglingalandsmótið, sem við héldum í fyrra, var fámennara en þau næstu á undan því langt og dýrt var fyrir fjöldann að koma. Það skildi samt eftir tekjur hjá fyrirtækjum og íþróttafélögum, reynslu hjá starfsmönnum og gleði í samfélaginu. Aukinn ferðakostnaður gerir Austurlandi ekki að fýsilegri kosti til mótahalds. 

Hvert eigum við að sækja styrkina til að borga ferðirnar? Ég gleðst ef austfirskt atvinnulíf er svo sterkt að við getum sótt styrki til fyrirtækjanna hér til að halda úti sama starfi þrátt fyrir hækkunina.

Ferðasjóðurinn sem Helga óskaði sér varð til fyrir nokkrum árum en fjármagnið kemur úr ríkissjóði. Þá áttu framlögin að vaxa ár frá ári en eftir hið víðfræga hrun varð þakið varanlegt. Á ferðakostnaðinn virðist ekkert þak komið enn. Ferðasjóðinn verður að efla strax því austfirsk íþróttafólk á bágt með að hafa við samkeppnisaðilum með milljónir í forskot.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar