Málþing um örugga netnotkun

BRÉF TIL BLAÐSINS: 

 hlif.jpg

Megapía ; ) says: Omg ógisslega krípi gaur sendi mér ask.  Sagðist vera gegekt sexeih og vildi tjilla en bað mig að láta vita ef POS.  Hrikalega lame ætla nett að blokka hann. Dno hvaða nerd gaf honum nikkið mitt en er sko ekki í mood fyrir svona ppl.  Sá dettur sko út af mínum bffl lista. Ef þú ert í einhverjum vafa um hvað málsgreinin hérna fyrir ofan snýst um þá er lausn í sjónmáli því SAFT, vakningarverkefni um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum, stendur fyrir opnum málþingum á 10 stöðum á landsbyggðinni undir yfirskriftinni “Þú ert það sem þú gerir á netinu”.   SAFT mun hafa málþing í Grunnskólanum á Egilisstöðum 7. apríl kl 20.00 og í Grunnskóla Reyðarfjarðar 8.apríl kl 20.00Markmið málþingsins er að draga annars vegar fram sýn nemenda og hins vegar foreldra og kennara á helstu kostum og göllum netsins. Hvar dregur hópana saman og hvar skilur að? Einnig verður áhersla lögð á að fá fram framtíðarsýn hópanna varðandi örugga og ánægjulega notkun og þróun netsins. Þátttakendur vinna fyrst í tveimur málstofum en málþinginu lýkur með sameiginlegri málstofu nemenda, foreldra og kennara þar sem gerð verður grein fyrir niðurstöðum.Málþingið er öllum opið og þátttökugjald er ekkert. Nemendur á aldrinum 11-16 ára eru sérstaklega boðnir velkomnir ásamt foreldrum sínum og kennurum. Öryggi barnanna okkar er eitt af því sem við leggjum mikla áherslu á í uppeldinu. Við kennum þeim snemma að varast heitar eldavélahellur, að líta til beggja hliða áður en gengið er yfir götuna og að tala ekki við ókunnuga sem þau gætu hitt á leiðinni heim úr skólanum. Þegar þau koma heim, henda frá sér skólatöskunni og setjast fyrir framan tölvuna þá er okkur létt því þau eru komin heim í öryggið, við getum fylgst með þeim. En hversu vel fylgjumst við með? Á netinu eru óteljandi möguleikar fyrir börnin bæði að leika sér og kynnast nýjum hlutum en eins og víðar þá finnast þar líka slæmir hlutir. Niðurstaða SAFT rannsóknar sem var framkvæmd árið 2007 sýnir að nettengdar tölvur eru á nánast hverju heimili í landinu.  Í 78% tilvika eru börnin að nota netið heima hjá sér í fyrsta sinn en þau eru að meðaltali 7,7 ára þegar þau nota netið í fyrsta sinn.  Meðalaldur barna sem eiga farsíma fer einnig lækkandi og spilun tölvuleikja á neti sömuleiðis. Það dylst engum að tölvu- og samskiptatækni hefur á fáum árum haft gríðarleg áhrif á heimili og vinnustaði í landinu, m.a vinnustaði barnanna okkar, skólana. Fleiri börn nota nú netið við skólaverkefni, eða 80% og 60% þeirra telja verkefnin verða betri með hjálp netsins. Börn og unglingar spjalla við vini sína oft á dag á  MSN, halda í æ meira mæli úti bloggsíðum og spila gagnvirka tölvuleiki við fólk út um allan heim. Oft eru börnin mun þjálfaðri í þessari tækni en foreldrar þeirra sem eiga erfiðara með að fylgjast með hvað þeir eru raunverulega að gera á netinu. Við hvetjum alla foreldra að mæta með börnunum sínum og eiga lærdómsríka og ánægjulega kvöldstund með þeim, vinum þeirra og öðrum foreldrum.  Hlíf Böðvarsdóttir Verkefnastjóri SAFT Hjá Heimili og Skóla

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar