Móðir allra stjórnarkreppa

Og við sem héldum að það hefði gengið illa að mynda ríkisstjórn í fyrrahaust!
Staða landsmála núna er sú snúnasta sem ég held að flest okkar hafi nokkru sinni upplifað. Það sem voru fáir kostir og þröngir fyrir tæpu ári síðan eru núna færri og þrengri.

Töfratalan til að mynda meirihluta á Alþingi er 32. Svona til glöggvunar er stærð þingflokka þessi:
Sjálfstæðisflokkur 21
Vinstri hreyfingin grænt framboð 10
Píratar 10
Framsóknarflokkur 8
Viðreisn 7
Björt framtíð 4
Samfylkingin 3

Fyrir ári síðan hélt Sjálfstæðisflokkurinn á öllum helstu spilunum, þótt staðan væri samt snúin. Helstu kostir á borðinu þá voru annars vegar Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn og hins vegar bandalag Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Seinni kosturinn varð fyrir valinu og nú er hann út af borðinu.

Píratar höfðu ekki áhuga á að vinna með Sjálfstæðisflokknum og myndu sennilega núna frekar éta gaddavírspasta heldur en að fara í þannig samstarf.

Vinstri græn voru alltaf hikandi við að vinna með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Nú er alveg dagljóst að þau munu alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. Sá kostur er því út af borðinu, sem og samstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Framsóknarfólk mun ekki vinna með Bjarna Benediktssyni.

Sjálfstæðisflokkurinn úr leik

Breyting á forystu flokksins (lesist: Bjarni Benediktsson láti sig snarlega hverfa og taki Sigríði Andersen með sér) gæti breytt framangreindu. Sú leið er Sjálfstæðisflokknum ófær. Það er enginn varaformaður í flokknum. Það er enginn sem getur tekið við formennskunni með stuttum fyrirvara og stýrt skútunni. Þau eru föst í súpunni þangað til þau hafa haldið landsfund. Það mun aldrei gerast nógu snemma til að mynda einhverja starfhæfa ríkisstjórn upp úr því.

Sjálfstæðisflokkurinn gat tölfræðilega séð valið úr býsna mörgum stjórnarmynstrum fyrir tæpu ári. Nú er hver og einn einasti þeirra lokaður. Það er „pólitískur ómöguleiki“ fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera í ríkisstjórn. Allar líkur eru á því að það muni líka verða tilfellið eftir kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn er úr leik. Án hans þurfa að minnsta kosti fjórir flokkar að ná saman til að mynda ríkisstjórn með meirihluta.

Allir aðrir líka úr leik

En eru aðrir kostir í stöðunni? Einn þeirra gæti verið miðju- og vinstristjórn fimm flokka, stjórnarandstaðan ásamt Bjartri framtíð. Sá kostur féll á sínum tíma í því að Björt framtíð og Viðreisn voru límd saman það hefur ekkert komið fram um að það hafi nokkuð breyst. Málefnaáherslur Viðreisnar til hægri hafa til þessa verið töluvert frábrugðnar. Aðeins eru nokkrir klukkutímar síðan Vinstri græn dúndruðu niður fjárlagafrumvarp sem formaður Viðreisnar mælti fyrir.

Að auki hafa báðir þessir flokkar lýst yfir vilja til að halda kosningar. Það kemur líka í veg fyrir að mynduð verði fimm flokka ríkisstjórn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, eins og heyrst hefur frá Pírötum.

Það eina sem hefur hugsanlega breyst frá því fyrir tæpu ári er að það yrði sennilega einfaldara fyrir Framsóknarflokkinn og Vinstri græn að ná saman. Þá er kannski mögulegt að ár saman á þingi hafa hjálpað þingflokkum Framsóknarflokks og Pírata að skilja hvert annað. En þau virka samt ennþá eins og þau tilheyri alls ólíkum dýrategundum (Framsóknarmenn eru frá Mars og Píratar frá Plútó!).

Svo nú verður ekki annað séð en að Bjarni Benediktsson eigi þann kost einan í stöðunni að renna við á Bessastöðum. Annað af tvennu til að biðjast lausnar eða boða þingrof og kosningar. Miðað við framangreint er það hið síðara. Kemur eiginlega ekki annað til greina.

Það verður kosið. Spurningin er bara hvort það verður í nóvember eða janúar. Ég hallast að því fyrra.

Hver á að stjórna landinu núna?

En þrátt fyrir að það liggi fyrir er ennþá eftir að finna út úr örlitlu vandamáli. Hver á að stjórna landinu á meðan?

Venjulega myndi lausnin vera að fela núverandi ríkisstjórn að sitja áfram til kosninga. En Guðni Th. Jóhannesson stendur eiginlega frammi fyrir því að það er ekki tækur kostur núna. Stjórnin hefur ekki einu sinni meirihluta til að sitja í tvo daga í viðbót, hvað þá tvo mánuði.

Er einhver flokkur sem væri hægt að fela að mynda minnihlutastjórn í þennan tíma? Er einhver þingmaður sem hefur áhuga á því að taka að sér ráðherraembætti í tvo mánuði í aðdraganda kosninga? Ég efast um það.

Það er þetta sem gerir það að verkum að ég leyfi mér að tala um móður allra stjórnarkreppa. Landið er í raun stjórnlaust og stutt í að svo verði nánast formlega líka. Ekki verður séð að það muni nein pólitísk ríkisstjórn verða í landinu fyrr en að afloknum kosningum. Þá má heldur ekki gleyma því að það er langt því frá sjálfgefið að það verði auðvelt að mynda stjórn þó svo að kosið verði strax í nóvember.

Það eru sterk rök fyrir því að það sé ekki nema einn kostur í stöðunni. Forseti Íslands þurfi að finna einstakling til að leiða starfsstjórn utan þingsins. Ráðherraembættin verði skipuð embættismönnum þar til að búið er að kjósa. Hvern ætti að fá til að leiða slíka stjórn er ekki gott að segja, en þann einstakling þarf að finna og það sem fyrst. Það má reikna með því að það sé það sem Guðni Th. Jóhannesson hafi byrjað á strax í nótt. En það er ekki víst að sú leit gangi þrautalaust fyrir sig.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.