Móðurmálskennsla tvityngdra nemenda.
Á Austurfrétt birtist fyrir viku grein eftir Ingibjörgu Þórðardóttur og Lilju Jóhannesdóttur, kennara við VA og Nesskóla um móðurmálskennslu tvítyngdra nemenda undir fyrirsögninni „Börn í Fjarðabyggð missa af tækifærum.“Við lestur greinarinnar mætti ætla að staðan í Fjarðabyggð væri verri en í öðrum sveitarfélögum á landinu hvað móðurmálskennslu tvítyngdra snertir, þ.e. að sveitarfélög annars staðar á landinu væru að bjóða upp á móðurmálskennslu í öllum þeim fjölmörgu tungumálum sem tvítyngd börn eiga. Það er hins vegar ekki reyndin því fæst sveitarfélag bjóða tvítyngdum börnum upp á kennslu í þeirra móðurmáli e.t.v. vegna þess að það er ekki lagaleg skylda sveitarfélaga og tungumálin mörg. Það eru hins vegar til slíkir skólar hérlendis sem og erlendis og skólar hér í Fjarðabyggð hafa t.d. stundum boðið upp á kennslu í pólsku og einnig í öðrum málum í gegnum tungumálatorg Laugalækjarskóla.
Í okkar fjölmenningalega samfélagi Fjarðabyggð erum við svo lánsöm að hafa 122 tvítyngd börn. í grunnskólunum okkar hafa síðustu ár verið töluð a.m.k. 18 tungumál, auk okkar ylhýra móðurmáls, íslenskunnar en þau eru pólska, arabíska, tagalog, spænska, enska, sænska, tví, bosníska, portúgalska, filippseyska, ítalska, serbneska, slóvenska, litháenska, thailenska, færeyska, ungverska og tékkneska.
Þeir fræðimenn sem hvað mest hafa kynnt sér fjölmenningu benda á mikilvægi þess að tvítyngdir nemendur viðhaldi sínu móðurmáli samhliða því að læra íslenskuna. Í úthlutunarreglum til grunnskólanna í Fjarðabyggð er gert ráð fyrir tímamagni til kennslu tvítyngdra nemenda og undanfarin ár hefur sveitarfélagið tvöfaldað það fjármagn sem kemur frá jöfnunarsjóði til íslenskukennslu nemanda þannig að hægt sé að veita tvítyngdum nemendum fjölbreyttan stuðning. Það er því bæði vilji og áhugi að styðja vel við tvítyngda nemendur.
Þar sem ég hef starfað innan skóla og það sem ég þekki til í öðrum skólum hefur mér fundist bæði starfsfólk og stjórnendur leggi allt kapp á að gera það sem hægt er, til að koma á móts við þá sem hafa sýnt því áhuga að vera í móðurmálskennslu t.d. í gegnum tungumálaver. Á höfuðborgarsvæðinu og víða erlendis hafa foreldrar brugðið á það ráð að taka sig saman og sjá um móðurmálskennslu barna sinna og hafa sveitarfélögin lánað húsnæði til kennslunnar. Notkun tækninnar og þróun tungumálavers Laugalækjarskóla er líka spennandi möguleiki og eftir því sem okkur fjölgar hér verða alltaf meiri möguleikar á að hægt sé að bregðast við og hafa móðurmálskennslu fyrir fjölmennustu hópanna.
Það er vilji sveitarfélagsins Fjarðabyggðar að styðja og styrkja það fólk sem flytur til okkar, við erum að gera fullt af góðum hlutum og erum tilbúin að vaxa og dafna með fjölmenningunni og leita leiða til að gera enn betur.
Ég fagna áhuga Ingibjargar Þórðardóttur varaþingmanns Vinstri Grænna á málinu og hlakka til að fylgjast með henni beita sér fyrir málinu á Alþingi okkar Íslendinga.
Höfundur er formaður fræðslunefndar Fjarðabyggðar