Múlaþing tækifæranna
Sameining fjögurra sveitarfélaga í Múlaþing var mikið framfaraskref og er sameinað sveitarfélag mun sterkara á eftir. Það er bjart framundan í Múlaþingi ef rétt er haldið á spöðunum en sveitarfélagið býr yfir miklum sóknarfærum til að byggja upp enn sterkara og fjölbreyttara atvinnu- og mannlíf til framtíðar.Það eru fjölmörg ónýtt tækifæri í ferðaþjónustu sem fer væntanlega á flug þegar hillir undir lok heimsfaraldurs. Staðsetning alþjóðaflugvallar í sveitarfélaginu býður upp á mörg tækifæri til atvinnusköpunar og vaxtar. Enn eru frekari tækifæri til vaxtar í fiskeldi, hafnsækinni starfsemi, landbúnaði, orkuöflun með vatnsaflsvirkjunum og vindorku. Þá munu störf án staðsetningar skapa aukna möguleika fyrir fólk til að velja Múlaþing sem ákjósanlegan búsetakost.
Það er mikilvægt að sveitarfélaginu sé stjórnað af aðilum sem vilja nýta tækifærin með sjálfbærum og ábyrgum hætti en séu ekki uppfull af gömlum kreddum þar sem alltaf á að gera eitthvað annað. Sum tækifærin eru umdeildari en önnur og mikilvægt að skapa um þau eins mikla sátt og kostur er með samvinnu sveitarfélagsins, atvinnulífsins, félagasamtaka og íbúa.
Sveitarfélagið á að fagna frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja og styðja við nýsköpun með þeim úrræðum sem það hefur yfir að búa. Það á að vera hvetjandi en ekki letjandi og vera með skilvirkt stjórnkerfi sem þjónustar íbúana og atvinnulífið sem best.
Það er ljóst að talsverð endurnýjun verður á lista Sjálfstæðisflokksins í vor. Við þurfum sterka forystu með skýra framtíðarsýn og kjark til að mæta áskorunum framtíðarinnar. Ég gef kost á mér til að vera hluti af forystu Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og halda áfram að gera Múlaþing að enn sterkara sveitarfélagi þannig að það þjóni okkur sem best. Það sem hvetur mig hvað mest áfram er óbilandi trú á þeim fjölmörgu tækifærum sem eru til staðar og sjá þau verða nýtt okkur öllum til heilla.
Höfundur er viðskiptafræðingur og gefur kost á sér í 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.