Munu nýjar snjóflóðavarnir í Neskaupstað hafa áhrif á húsin okkar?

Á þriðjudaginn síðastliðinn fór ég á mjög svo upplýsandi fund með nokkrum Norðfirðingum sem hafa áhyggjur af fyrirhuguðum snjóflóðavörnum fyrir ofan Neskaupstað. Ég hef áður skrifað um efnið í grein sem birtist á vef Austurfréttar 8. nóvember 2015. Á fundinum var farið yfir framkvæmdina og hún skoðuð frá ýmsum sjónarhornum og gagnrýnd. Eitt af því sem rætt var um var staða húseigenda sem búa undir fyrirhuguðum görðum.


Í ljósi sögunnar er það ekki ólíklegt að hús verði fyrir tjóni þegar um jafn gríðarmiklar framkvæmdir og bygging snjóflóðavarnargarða ræðir. Slíkt tjón getur t.d. orðið vegna sprenginga eða breytinga á stöðu og rennsli grunnvatns.

Þegar varnargarðarnir sem nú þegar eru komnir voru í byggingu rigndi grjóti yfir nærliggjandi hús og urðu þau fyrir tjóni. Hver ber ábyrgð á slíku?

Einhverjir hafa nefnt að ekki sé síður ástæða til að hafa áhyggjur af langtímaáhrifunum. Varnargarðurinn fyrir ofan Mýrarhverfi og Bakkahverfi er í mýri og situr stór hluti garðsins á 3-10 m malar- eða grjótpúða og því mun verða gífurleg hreyfing á því vatni sem er í jarðveginum. Ég velti því fyrir mér hvort hætta sé á að vatn muni því streyma inn í íbúðarhverfi og valda þar tjóni. Núverandi grunnvatnsstaða og flæði þess hefur ekki verið kortlögð og engar rannsóknir framkvæmdar til að meta áhrif framkvæmdanna á núverandi vatnsflæði.

Það hlýtur að vera mikilvægt að fylgjast vel með þessum breytingum og gera mælingar. Er raunveruleg hætta á að vatnið geti valdið tjóni á húsunum okkar? Og hver ber ábyrgð á því að meta tjónið og bæta?

Í skýrslu Eflu um framkvæmdirnar kemur ekkert fram um það hvernig tryggja eigi að hús verði ekki fyrir tjóni og ekki heldur neitt um það hvar bótaskyldan liggur. Það sem er tilgreint í skýrslunni, er að sá hluti garðsins sem fljóti þurfi að síga í einn vetur áður en aðrar framkvæmdir hefjist og að hann skuli vera óháður öðrum hluta garðsins vegna mismunandi sigs. Þetta er aðeins einn af þeim fjölmörgu vinklum sem nauðsynlegt er að skoða áður en ráðist er í framkvæmdirnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar