Næst á dagskrá
Næst á dagskrá: Aldraður maður ásakaður um kynferðislega áreitni mætir í beina útsendingu með sína hlið málsins !Satt að segja þá hélt ég að það væri komið fram allt það skrýtna sjónvarpsefni sem eru þolmörk fyrir innan samfélagsins. Ég hef horft á þætti þar sem nánast hæfileikalaust fólk mætir í sjónvarpssal og reynir að sannfæra sjálfan sig og aðra um að þau séu í raun óuppgötvaðar hæfileikaríkar stjörnur. Líka þætti þar sem ókunnugt fólk er sett saman á eyðieyju og etur kappi við hvert annað í allskyns þrautum og keppnum, sigurvegarinn svo loks krýndur eftir að hafa sigrað og svikið sig gegnum dvölina. Hef líka horft á þætti þar sem hámenntaður sálfræðingur gengur um með myndatökumanni og tekur hús á fólki sem gengur ekki alveg í takt við flesta og reynir svo að draga uppúr þeim allt það undarlegasta sem sem flýgur um koll viðmælandans.
Svo voru einu sinni þættir þar sem skólastjóri hússtjórnarskóla mætti heim til fólks og kenndi því að þrífa heimilið og lét það í sífellu heyra það um hversu miklir sóðar það væri. Undarlegasta sjónvarpsefnið hélt ég lengi að væri samt þegar tugum vonbiðla er otað að einhleypum karli eða konu. Sá einhleypi þarf svo að tala við alla, gefa rósir,fara í sleik við sem flesta og játa ótt og títt ást sína á þessu ókunnuga fólki og enda svo á að giftast einum vonbiðlinum.
Allt ofangreint varð hins vegar fullkomlega eðlilegt í samhengi við það sem ég sá svo þegar ég horfði á Ríkissjónvarpið á sunnudaginn 3.feb. Nánar tiltekið á sjónvarpsþáttinn Silfrið. Aldrei áður hafði ég séð sjónvarpsefni þar sem maður mætir í beina útsendingu til þess beinlínis að rökræða ásakanir á hendur sér um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni. Þarna sat viðkomandi og reifst og skammaðist útí það að einhverjum skyldi detta það í hug að hann gæti verið sekur um það sem hann er ásakaður um.
Augljóst væri öllum sem kynntu sér málið að dóttir viðkomandi væri geðveik og að allar þessar ásakanir væru frá henni komnar. Dóttir viðkomandi væri sumsé búin, mitt í sinni meintu geðveiki, að ná til sín tug kvenna sem færu allar fram saman með ásakanir á hendur honum. Ástæðan fyrir þessari furðulegu hegðun þessa hóps kvenna mætti svo rekja til þess að það stæði til að gefa út bók og halda ráðstefnu um mikilfengleika hins aldraða manns sem áhrifamanns í samfélaginu í áratugi og að áður nefnda geðveika dóttir hans væri að reyna að koma í veg fyrir það. Þannig afgreiddi hann framkomnar ásakanir.
Strandaglópur
Þáttastjórnandinn ræddi reyndar líka við hann um annað mál. Þar hafði hann gengist við að hafa gert rangt og beðist fyrirgefningar. Málið snérist um bréfaskriftir. Það voru að sjálfsögðu skýringar á reiðum höndum þar líka. Það vildi nefnilega þannig til að hann varð strandaglópur á flugvelli og þetta varð einhvern veginn niðurstaðan úr þeirri atburðarás.
Ég hef sjálfur lent í því að verða strandaglópur á flugvelli og ég get vottað að það er ansi leiðinlegt. Ég man að það fyrsta sem ég gerði var að finna mér þægilegan stað til að setjast inn á, það sama sagðist viðmælandinn hafa gert. Ég pantaði mér bjór og eitthvað nasl, sama sagðist viðmælandinn hafa gert. Svo hringdi ég í konuna mína, bróður minn og svo loks móður mína, sagði þeim fréttirnar og spjallaði við þau til að drepa tímann.
Viðmælandinn sagði hins vegar frá því að hann hefði tekið upp bréfsefni og ákveðið að setja niður á blað klámfenginn texta til frænku sinnar á táningsaldri og senda henni það svo þegar heim væri komið. Reyndar þá meinti hann það alls ekki á klámfenginn hátt, þetta var víst bara dómgreindarskortur af hans hálfu að átta sig ekki á því að táningsfrænka hans væri ekki með vitsmunalega getu til að skilja að þetta væri bara myndlíking um samband Suður og Norður Ameríku… það segir sig eiginlega sjálft !
Ég er ekki sannfærður um að þetta sé sjónvarpsefni sem eigi eftir að verða langlíft. Ekki það að efniviðinn vanti, samkvæmt tölfræðinni þá er ansi líklegt að það séu fleiri en einn Jón Baldvin í hverri ætt eða stórfjölskyldu og því væri ábyggilega hægt að búa til margra þátta seríu þar sem þeir mæta í viðtöl og útskýra sína hlið. Sennilega eru samt fáir af þeim jafn uppfullir af sjálfum sér að þeim dytti í hug að mæta í beina sjónvarpsútsendingu til að afhjúpa sinn sjúka hugarheim, að því leytinu var þetta algjörlega einstakt sjónvarpsaugnablik.