Nemendaþjónusta Menntaskólans á Egilsstöðum á skilið hrós

Sem framkvæmdastjóri Félags lesblindra hef ég rekist á marga sem færa samfélagið fram á veg. Ég er sannfærður um að fyrir það við mættum hrósa fólki oftar. Jafnvel sem við þekkjum lítið til.

Félag lesblindra vinnur að fræðslu og hagsmunamálum um 2.000 félagsmanna vítt og breytt um landið, aðstoðar lesblinda og er oft í samvinnu við aðstandendur og kennara. Félagið eru frjáls félagasamtök rekin af sjálfsaflafé án opinberra framlaga.

Öflug fræðsla og ráðgjöf fyrir lesblinda nær langt út fyrir raðir félagsins. Þörf samfélagsins er brýn og því mikilvægt að margir leggist á árarnar. Lesblinda getur orsakað kvíða og valdið álagi ekki síst við nám sem kallar á mikinn lestur. Það getur valdið kvíðaröskun og ótti nær ekki einungis til skólastarfs heldur smitast til annarra þátta í lífinu. Þannig getur lesblinda haft áhrif á almenn verkefni lífsins og hamlað því að þess sé notið til fulls. Þess vegna er mikilvægt að draga fram upplifun lesblindra og sýna bjargráð og hin mörgu úrræði sem þeim nýtast.

Sem forystumann Félags lesblindra langar mig að hrósa Nönnu Dóru Imsland á Egilsstöðum og vinnustað hennar, Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Hvernig ná Nanna og félagar að færa samfélagið fram á veginn? Frá árinu 2015 hefur Nanna verið náms- og starfsráðgjafi nemendaþjónustu Menntaskólans á Egilsstöðum. Hún er uppalin á Höfn í Hornafirði og búsett á Egilsstöðum, er með BA-gráðu í þjóðfræði og meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Einnig hefur hún verið stundakennari við háskólann í ráðgjöf við upplýsinga- og samskiptatækni.

Starf nemendaþjónustu menntaskólans hefur vakið athygli hjá lesblindum. Þar hefur verið veitt ráðgjöf á margmiðlun og tækninýjungum með áherslu á nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni. Það hefur meðal annars skilað sér í námskeiðum fyrir nema við Menntaskólann á Egilsstöðum sem eiga erfitt með lestur, nokkuð sem hún hefur kallað „lesblindusmiðju.“ Þar hefur hún veitt fræðslu um lesblindu, fjallað um einkenni, líðan og úrræði og notkun hjálpartækja. Kynntar hafa verið lausnir með ólík notagildi frá ýmsum samtökum og fyrirtækjum þannig að flestir ættu að finna það sem þeim nýtist.

Á vef nemendaþjónustunnar hefur Nanna ásamt samstarfsfólki, sett saman mikinn fróðleik fyrir lesblinda og nemendur sem eru af einhverjum ástæðum með sértæka námsörðugleika. Kynntar eru námstækniaðferðir og tölvu og símaforrit sem styðja nemendur við lestur, ritun, og skipulag. Hver og einn er hvattur til að þekkja birtingarmyndir sinnar lesblindu og hvaða leiðir geti gagnast honum í námi, svo sem öpp, forrit og vefviðbætur.

Í þessu starfi Menntaskólans á Egilsstöðum brennur áhugi á að færa til betri vegar. Það verður vonandi öðrum framhaldsskólum landsins til fyrirmyndar og hvatningar. Þannig gæti þetta orðið mikilvægt framlag í þágu þúsunda lesblindra einstaklinga í íslensku samfélagi. Er þá ekki til mikils unnið? Það er góð ástæða til hróss.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags lesblindra á Íslandi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.