Nice
Það er sama hvort það er gleði eða sorg, þeir atburðir sem gerast nær okkur hafa alla jafna meiri áhrif á okkur. Þannig snertir hryðjuverkið í Nice við fjölda Íslendinga sem nýlega hafa eytt sumarleyfisdögum sínum í frönsku Miðjarðarhafsborginni.Á rúmu ári hafa hryðjuverkamenn tekið rúmlega 200 frönsk mannslíf í tveimur stórárásum og þá eru ekki taldar með nokkrar minni árásárir undanfarin misseri. Frakkar eru slegnir sem og nágrannaþjóðir þeirra. Neyðarlög sem heimila handtöku án rökstudds gruns hafa verið verið í gildi síðan í nóvember og nágrannaríki herða viðbúnað sinn.
Hryðjuverkin tvö í Frakklandi hafa þá sérstöðu að skotmarkið er fólk í fríi. Fólk er afslappað og ánægt. Á augabragði er stund gleðinnar umturnað í ævarandi hörmung og sorg. Hversdagslegum nytjahlut, í þessu tilfelli vörubíl, er breytt í banvænt vopn.
Hryðjuverk eru framin fyrir málstað, ætlað að skapa ótta og þvinga fram kröfur. Stundum er sagt að þau séu síðasta úrræði þess litla sem sá stóri hlustar ekki á. Óttinn er að mestu tilfinningalegur fremur en rökrænn. Til er stuðull yfir líkur á dauða af völdum hryðjuverka eða slysa. Margfalt líklegra er að ferðamaður á leið í frí deyi í bílferðinni á flugvöllinn í heimalandinu en árás á áfangastað. Álíka margir deyja af því að fá kókoshnetu í höfuðið á ári og af hryðjuverkum í Vestur-Evrópu.
Vestur-Evrópubúar eru ekki heldur óvanir hryðjuverkum, þótt landssvæðið hafi verið friðsamlegra móti undanfarin ár. Að auki eru fórnarlömb hryðjuverka margfalt fleiri annars staðar í heiminum. Í Tyrklandi hafa 300 manns látið lífið undanfarið ár. Í nær hverri viku er sprengja þar sprengd.
En við stjórnumst af tilfinningum. Þegar ráðist er að óbreyttum borgurum að slaka á þá upplifum við að hvergi sé skjól.
Í sorginni og reiðinni er hætta á hvatvísum viðbrögðum sem skapað geta frekari fórnir en þau koma í veg fyrir. Hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum, sem leiddi til upplausnar í Íraks, hefur kallað fleiri hryðjuverk og hörmungar yfir heimsbyggðina en það sem það átti að koma í veg fyrir.
Þeir sem stráfella saklausa borgara, þar á meðal börn, eiga ekki heima við neitt samningaborð og gjörðir þeirra benda ekki til þess að þeir séu til neinna samninga. Á sama tíma verðum við að muna að hatri má ekki mæta með hatri. Verkunum er ætlað að skapa ofsa og ótta. Þar af leiðandi eru það viðbrögðin sem við megum ekki sýna. Þeim er ætlað að ganga gegn frelsi okkar en við virðumst jafnvel til í að fórna þeim sjálfviljug í staðinn fyrir meint öryggi.
Hryðjuverk verða ekki upprætt með auknum stríðsrekstri. Gegn þeim verður best barist með jafnari, sanngjarnari og betri heim.