Norðfjarðargöng og Tortola

Sveinn Jónsson skrifar:   Samgönguráðherra Kristján L. Möller hélt í gærkvöld fund á Neskaupsstað um samgöngumál á Austur- og Norð-austurlandi.  Tíundaði hann og vegamálastjóri, sem með honum var, þar með ágætum að hverju væri unnið á vegum ráðuneytisins á yfirstandandi ári.  Ráðherra  kynnti m.a. væntingar sínar um að niðurstaða fengist senn um byggingu umferðarmiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll og festi hann þar með í sessi á sínum stað í Vatnsmýrinni.  Verk sem þegar höfðu verið ákveðin á vegum ráðuneytisins voru að því er virtist öll meira og minna á áætlun í kjördæmi ráðherra.  En þegar kom að Norðfjarðargögnum þá vandaðist nú málið.

 

Rannsóknir, hönnun og útboðsundirbúningur væri þar einnig allur á áætlun en það vantaði græna ljósið á að útboð og framkvæmdir gætu hafist á áður áætluðum tíma þar sem peninga vantaði vegna bankahruns og kreppunnar, sem af hefur hlotist.  Skilja mátti þó á máli ráðherra að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng yrðu senn komnar af stað enda um einkaframkvæmd að ræða. Fundarmenn setti hljóða í troðfullum sal og voru sem lamaðir.   Ráðherra varð að hvetja menn til að tjá sig og þá losuðu menn, sem betur var aðeins um málbeinið.      
Ráðherra hafði einnig í upphafi máls síns síns vakið athygli á því að L. í nafni hans stæði fyrir Lúðvík.  Undirrituðum þótti lítið leggjast fyrir ráðherra við þessar aðstæður að reyna að slá sér upp á þessum skyldleika í Neskaupsstað, fyrrum höfuðvígi Lúðvíks þess eina og sanna Jósepssonar, en hvað um það.  


Kreppan er engin afsökun til að slá á frest því sem Austfirðingum hefur áður verið staðfastlega heitið af stjórnvöldum á siðastliðnum árum um gerð Norðfjarðarganga.  Því hefur verið haldið fram nýverið í þessu sambandi, að nærri þriðjungur gjaldeyristekna þjóðarinnar komi úr Fjarðabyggð og má það vel vera.  Hvað sem allri kreppu líður hefur búsáhalda-bylting verið gerð í landinu.   Ráðherra lifði af þá byltingu og situr nú í aðstöðu með öðrum ráðherrum til að taka á þeim ,,terroristum” sem urðu valdir að bankahruninu hérlendis og koma landinu upp úr kreppunni.   Núverandi stjórnvöld verða að aflétta bankaleyndinni  og upplýsa strax hverjir terrroristarnir eru, sem hafa komið þjóðinni í þá stöðu sem hún er í.   Strax skal hafa á þeim endaskipti (til forna hefðu þeir einfaldlega verið látnir hanga þannig þar til springju út á þeim augun) og hrista svo úr vösum þeirra hvern milljarðatuginn af öðrum þar til fengist hefur upp í það tjón sem þeir hafa valdið.  Síðan yrðu þeir best vistaðir á Tortola.    Þeir 7 – 9 milljarðar sem Norðfjarðargöng kunna að kosta, eru smáupphæðir í þessu samhengi og fyllilega réttlætanleg fjárfesting í innansveitar samgöngum þar sem framleiðslutekur eru svo sem raun ber vitni, svo ekki sé nú minnst á öryggissjónarmiðin o.fl.


Samgönguráðherra  með fjár-og atvinnumálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, sitjandi  sér við hlið hlýtur að geta komið því svo fyrir þó tíminn sé naumur til kosninga, að hver þau stjórnvöld sem á eftir verða við völd, geti ekki vikið sér undan því að framkvæmdir við Norðfjarðargöng verði hafnar og lokið á áður tilsettum tíma.  Nái þeir þannig staðfestingu fram eiga þeir skilið afgerandi stuðning allra Austfirðinga í komandi kosningum.  Allur fagurgali frambjóðenda annarra flokka verður þá hjáróma.  Með gerð Norðfjarðarganga yrðum við komin áleiðis með Samgöng, sem tengja miðsvæði Austurlands í eina heild.

                                                                                                                                      Sveinn Jónsson
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar