Nýsköpun í verki
Helgina 11. - 13. maí verður Atvinnu- og nýsköpunarhelgi hér á Austurlandi í samstarfi við Fjarðabyggð og Þróunarfélag Austurlands. Landsbankinn og Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur hafa staðið fyrir slíkum viðburðum í vetur.
Starfið sjálft fer fram í Grunnskólanum á Reyðarfirði og hefst klukkan 17:30 á föstudag. Þá halda þátttakendur með viðskiptahugmynd stutta kynningu á sinni hugmynd og engu skiptir hvort hún er lengra komin, á byrjunarreit eða jafnvel hluti af vöruþróun fyrirtækis. Unnið verður alla helgina að framgangi þeirra hugmynda sem mestan hljómgrunn fá meðal þátttakenda og á sunndag verða veittar viðurkenningar fyrir afraksturinn. Fyrirtæki af svæðinu styðja viðburðinn myndarlega sem gerir mögulegt að veita peningaverðlaun fyrir bestu hugmyndirnar.
Við viljum hvetja alla, bæði þá sem eru með viðskiptahugmynd og þá sem vilja vinna með frumkvöðlum að framgangi hugmynda þeirra, til að taka þátt. Enginn kostnaður fylgir þátttöku og fer skráning fram á www.anh.is. Þar er þar einnig hægt að nálgast dagskrá og nánari upplýsingar um Atvinnu- og nýsköpunarhelgina.
Við lítum svo á að á Austurlandi blasi við fjöldi tækifæra til uppbyggingar í atvinnulífinu. Með því að efla frumkvöðlastarf eykst fjölbreytni og styrkur á okkar svæði og slíkt skapar traustari stoðir til framtíðar.
Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans á Egilsstöðum
Björn Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans í Fáskrúðsfirði
Sigurður Ásgeirsson, útibússtjóri Landsbankans á Reyðarfirði
Svanborg S. Víglundsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Vopnafirði