Nýtum tækifærin

ingvi_rafn_ingvason_xd.jpg
Á Norðurlandi er gott að búa. Grunnstoðirnar í atvinnu hafa verið og eru fiskveiðar og landbúnaður í gegnum tíðina en sífellt færri vinna við þessi störf í dag þó að framleiðslan hafi aukist með árunum. Mesta fjölgun starfa undanfarin ár er í þjónustugreinum, verslun og menningu á svæðinu. Með tilkomu t.d. Háskólans á Akureyri varð lyftistöng í menntamálum á svæðinu. Það þarf að passa að Háskólinn eflist áfram og störfum fækki ekki. Ánægjuleg viðbót í skólaflóruna á svæðinu er Framhaldsskólinn í Fjallabyggð en framhaldskóli í heimabyggð er mjög mikilvægur þáttur í því að ungt fólk búi lengur í heimabyggð. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er líka þungamiðja í atvinnu á Eyjafjarðarsvæðinu og einnig þar þarf að tryggja að ekki verði skorið svo við nögl að sú mikla og góða starfsemi sem er þar geti dafnað og þrifist og sinnt þeim skildum að vera sjúkrahús fjórðungsins. Einnig þarf að tryggja grunnstoðir víðar eins og á sjúkrahúsinu á Húsavík.  

Ekki má gleyma ferðaþjónustu á Norðausturlandi sem hefur vaxið fiskur um hrygg og í því sambandi er ég alfarið á móti tillögum ríkisstjórnar að hækka gjald á ferðaþjónustu með gistináttaskattinum svokallaða úr 7% í 14%.

„Beint frá býli“ er slagorð sem ferðaþjónustubændur hafa notað og er það vel en það verður að tryggja að það borgi sig fyrir ferðaþjónustubændur og aðra sem eru með smáiðnað að lagaverkið sé ekki svo flókið, dýrt og hreinlega heimskulegt að það standi þeim fyrir þrifum.  Dæmi um velheppnað „Beint frá býli“ framtak er t.d. Holtssel í Eyjafirði. 

Mikilvægt er að byggð haldist og störfum fjölgi. Til dæmis mætti alveg færa eins og nokkur stöðugildi í ríkisrekstri út á land, t.d. á Siglufjörð eða Þórshöfn eins og var gert með Atvinnuleysistryggingar til Hvammstanga á sínum tíma sem er gott mál.  

Mál númer eitt, tvö og þrjú er að fólk hafi vinnu. Vinnuumhverfi hefur gjörbreyst á undanförnum árum. Nú þarf ekki þessa miklu yfirbyggingu eins og þurfti hér einu sinni heldur er oft nóg í dag; skrifborð, stóll, tölva og óendanlegur mannshugurinn og ótrúlegustu hlutir geta gerst. Það vantar fleiri tölvuforritara á vinnumarkað. Þar eru tækifærin. Þar er hægt að efla og virkja tölvuáhuga fólks á minni stöðum og hugsanlega fæðast þar framtíðarforritarar sem vekja athygli á heimsvísu eins og það fólk sem stendur að EVE Online tölvuleiknum.  

Ég vil koma upp gróðurhúsum og knýja þau áfram með jarðhita eins og á Laugum í Eyjafirði, nálægt Húsavík og Egilsstöðum. Þar væri hægt að skapa 5-10 störf í gróðurhúsinu í c.a. 20.000 fermetra húsi.  Þar væru ræktaðir salathausar, melónur og fleira sem er flutt inn í dag með flugvélum. Væri ekki nær að við sem þjóð brauðfæðum okkur sjálf og gætum þegar tímar líða jafnvel flutt út grænmeti til annarra landa? Með jarðhita, sem er umhverfisvænn að mestu, og hreinu íslensku vatni er þegar búið að sanna það af grænmetisbændum að okkar framleiðsla er mjög góð nú þegar. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að þetta sé gert annarstaðar á landinu eins og á Norðausturlandi. Við höfum tækniþekkinguna, jarðhitann, raforkuna, við höfum vatnið, við höfum moldina, skítinn í moltuna og mannskap og fræ en nú vantar fleiri gróðurhús. Eflum vistvæna atvinnu og fjölgum atvinnutækifærum. Við höfum þetta allt í okkar höndum. Við þurfum aðeins að taka ákvörðun um að skapa.

Höfundur er í framboði fyrir Sjálfstæðisflokk í Norðausturkjördæmi og sækist eftir 2.-4. sæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar