Nú árið er liðið

Nú er rétt ár liðið frá því sveitarfélagið Múlaþing varð til eftir að íbúar á Borgarfirði eystra, Djúpavogshreppi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði samþykktu sameiningu í kosningum 25. september á síðasta ári.

Þetta fyrsta ár nýs sveitarfélags hefur á margan hátt verið mjög sérstakt, sumt hefur reynst fyrirsjáanlegt, annað ekki. Það blasti til dæmis við að kjörnir fulltrúar, starfsfólk sveitarfélagsins og íbúar myndu þurfa tíma til að aðlagast nýju stjórnskipulagi þar sem heimastjórnir voru kynntar til sögunnar. Einnig þeirrar áherslu sem lögð hefur verið á fjarfundi þegar því verður við komið til að tryggja jafna möguleika til þátttöku í sveitarstjórnarmálum í víðfeðmu sveitarfélagi óháð búsetu. Fyrir íbúa minni byggðakjarnanna voru það líka viðbrigði að hafa ekki lengur sveitar- eða bæjarstjórann í kallfæri og áfram mætti telja.

Það sem ekki varð séð fyrir hins vegar var að þetta fyrsta ár myndi líða í skugga heimsfaraldurs með tilheyrandi álagi á innviði og að í aðdraganda jóla þyrfti að rýma Seyðisfjörð í kjölfar náttúruhamfara. Atburðarásin sem fylgdi í kjölfar skriðufallanna á Seyðisfirði einkenndist af samstöðu og samhjálp. Allir í Múlaþingi lögðust á eitt við að aðstoða þá sem áttu um sárt að binda og þegar litið er til baka er ljóst að á þessum tíma vorum við öll Seyðfirðingar. Það var líka mikilvægt að finna þann stuðning sem sveitarfélagið fékk frá ríkinu og í samstarfi við starfshóp ráðuneyta um uppbyggingu á Seyðisfirði hefur margt áunnist þótt enn séu verkefnin næg.

Þrátt fyrir og kannski að hluta til vegna þessa hefur þetta fyrsta ár í Múlaþingi gengið vel og það er líf og kraftur í nýju sveitarfélagi. Atvinnuástand er gott. Á Djúpavogi standa yfir framkvæmdir við höfnina þar sem verið er að endurnýja og lengja viðlegukant. Samhliða er í byggingu 2800 ferm. umbúðaverksmiðja sem ætlunin er að taka í notkun fyrri hluta næsta árs. Einnig er í byggingu fimm íbúða raðhús auk þess sem nokkrir einstaklingar eru að hugsa sér til hreyfings varðandi byggingu einbýlishúsa.

Á Egilsstöðum er uppbygging. Nýr leikskóli, sem tekinn verður í notkun á næsta ári er í byggingu og nýtt deiliskipulag fyrir miðbæinn hefur tekið gildi auk þess sem metnaðarfullar hugmyndir eru uppi um skipulagningu nýs íþróttasvæðis.

Á Seyðisfirði hefur verið lyft grettistaki í kjölfar skriðufallanna í vetur s.s. í gatnagerð, malbikun og við gerð varnargarða og verða verktakar og aðrir sem að því komu ekki dásamaðir nóg. Unnið er að því að tryggja örugga landtengingu fyrir ferjuna, flutning húsa og stefnt er að gerð landfyllingar fyrir botni fjarðarins.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Borgarfirði, hvort tveggja í íbúðarhúsnæði og í tengslum við ferðaþjónustu og nú er meira að segja hægt að fara í ríkið og kaupa borgfirskan landa!

Samstarf í sveitarstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur gengið vel og fyrir það ber að þakka. Hinu má ekki gleyma að þó svo margt hafi áunnist og gengið vel á þessu fyrsta ári bíða fjölmörg verkefni s.s. á sviði atvinnu-, samgöngu-, mennta- og umhverfismála. Íbúar Múlaþings hafa hins vegar fulla ástæðu til bjartsýni og geta litið um öxl stoltir yfir því sem áunnist hefur á þessu fyrsta ári í lífi nýs sveitarfélags. Við gerðum þetta öll saman.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.