Ný glæsileg uppsjávarveiðiskip
Norðlendingar héldu hátíð í upphafi apríl þegar nýtt, glæsilegt uppsjávarskip Samherja kom til heimahafnar á Akureyri. Vilhelm Þorsteinsson EA 11, sem er 89 metrar á lengd og 16,6 metrar á breidd, hefur burðargetu yfir þrjú þúsund tonn í þrettán lestartönkum og verður aflinn kældur til að hráefnið komi sem ferskast að landi.Hið nýja skip er áminning um mikilvægi sjávarútvegs í öllum landsfjórðungnum. Öllu máli skiptir fyrir byggðir að sjávarútvegur gangi vel og sé rekinn af sóknarhug. Ný atvinnutæki eru svar við æ meiri kröfum um arðbærni, alþjóðlega samkeppni og aukna nýtingu hráefnis.
Fjárfestingar í nýjum skipum og hátækni til að mynda á Dalvík, Eskifirði og víðar, kalla á tæki frá íslenskum framleiðendum fyrir milljarða. Þannig hafa veiðar og vinnsla einnig verið íslenskum iðnaði aflvél. Það sýnir mikill vöxtur síðustu 30 ára hjá fyrirtækjum á borð við Marel, Skaginn 3x, Curio, Völku, Vélfag, Hampiðjan, Frosts, Egersund, Rafeyri, Baader á Íslandi, og svo mætti lengi telja. Leiðandi fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi inn í fjórðu iðnbyltinguna. Hátækni kallar eftir fjölgun vel menntaðs tæknifólks í sjávarútvegi. Það skiptir ekki síst máli á landsbyggðinni.
Miðað við vægi sjávarútvegs á landsbyggðinni samanborið við höfuðborgarsvæðið, er hann sannarlega „landsbyggðargrein“. Einungis landbúnaður stendur þar framar. Sé horft til allra atvinnugreina var árið 2017 um 67 prósent framleiðslu á höfuðborgarsvæðinu en 33 prósent á landsbyggðinni. Í sjávarútvegi má rekja 14 prósent til höfuðborgarsvæðis en 86 prósent til landsbyggðar.
Það skiptir því öllu fyrir landsbyggðina að sjávarútvegi séu búin góð og ekki síst stöðug rekstrarskilyrði. Hörð alþjóðleg samkeppni sjávarútvegs tekur lítil mið af aðstæðum á Íslandi. Við bætast náttúrulegar sveiflur ekki síst í aflabrögðum uppsjávarfiska, síldar, loðnu, kolmuna og makríls.
Austurland, öflugasta svæði Íslands í uppsjávarveiðum, býr yfir góðum flota til veiða og öflugri fiskvinnslu: Uppsjávarhús Eskju á Eskifirði, Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað, Brims á Vopnafirði og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði. Nálægð við fiskimið eykur getu og hagkvæmni veiða. Öflugar vinnslur og fiskiskip auka enn möguleika á gæðastýringu og arðsemi.
Það tendrast vorhugur þegar nýr Börkur, uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, mun leggja að heimahöfn. Þetta systurskip Vilhelms Þorsteinssonar mun í framtíðinni færa á land fyrsta flokks hráefni, aukna verðmætasköpun og lífskjör. — Það veit á gott.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Mynd af Vilhelm Þorsteinssyni í Akureyrarhöfn: Axel Þórhallsson