Nýtum kosningaréttinn
Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að kosningar eru á næsta leiti en á síðustu vikum hafa frambjóðendur Framsóknar verði á ferð og flugi um sveitarfélagið til þess að kynnast íbúum, fyrirtækjum og einstaklingum og vita hvað brennur á þeim.Það er gríðarlega mikilvægt að ná snertingu við íbúana. Þessi samtöl taka frambjóðendur með sér sem veganesti næstu fjögur árin. Það hefur verið tekið vel á móti frambjóðendum Framsóknar og það er ánægjulegt að finna meðbyrinn. Fyrir það ber að þakka.
Það er mikilvægt að í sveitastjórnir veljist fólk sem hefur ríka samvinnuhugsjón. Við í Framsókn höfum ávallt lagt áherslu á samvinnu innan bæjarstjórna, nefnda og ráða sem og samvinnu við íbúa. Við þurfum að hlusta á þá sem þiggja þjónustuna.
Sveitarstjórnarkosningar eru á fjögra ára fresti, ólíkt kosningum til Alþingis þar sem hægt er að rjúfa þing og boða til kosninga ef ósætti kemur upp. Því skiptir máli að það fólk sem velst í sveitarstjórn sem með hugann að samvinnu allt kjörtímabilið
Það skiptir fleira máli en stefnumál
Í Framsókn býr mikil mannauður, ólíkir einstaklingar sem koma úr ólíkum hópum en ganga saman í takt. Það skiptir máli að hafa kröftugt fólk í framboði sem hefur áhuga, vilja og getu til að leysa hnúta saman og ganga í framkvæmdir. Á lista Framsóknar í Múlaþingi situr traust fólk í hverju sæti sem státar af mikill og breiðri reynslu. Fólk sem vill leggja sitt fram til þess að gera gott samfélag enn betra.
Stefnumál skipta vissulega máli, en það sem skiptir mestu er að í sveitastjórn sé fólk sem vinnur af samviskusemi, samheldni og samvinnu að leiðarljósi. Framboð Framsóknar í Múlaþingi hefur svo sannarlega þá eiginleika til að bera.
Höfum áhrif á nærsamfélagið
Á laugardaginn fáum við tækifæri til þess að nýta kosningarétt okkar. Fullt af frambærilegu fólki hefur gefið kost á sér, og það er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Í kosningunum höfum við tækifæri til þess að hafa bein áhrif á stjórn í okkar nær samfélagi og það er mikilvægt að sem flestir nýti þann rétt. Ég vil biðla til ykkar að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn Þá vil ég biðla til þín kæri kjósandi að veita Framsókn traust til þess að starfa fyrir þig og setja X við B á kjördag.
Undirrituð er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.