Óbyggðanefnd að störfum á Austurlandi – Hvað er í vændum?

Óbyggðanefnd hefur tekið til meðferðar svæði á Austurlandi þar sem eftir á að fjalla um mörk þjóðlenda.

Lýsa má svæðinu sem Austfjarðafjallgarðinum að mörkum Austur-Skaftafellssýslu. Óbyggðanefnd hafði til umfjöllunar svæði innan Fljótsdalshrepps og norðan Jökulsár á Dal á árunum 2005-2007 og Austur Skaftafellssýslu árin 2004-2006. Þetta er síðasta landsvæðið sem Óbyggðanefnd tekur fyrir, en þó er gert ráð fyrir að lokum verði fjallað um eignarréttarlega stöðu eyja og skerja við Ísland. Jafnframt hefur nefndin nýlega fengið umdeilda lagaheimild til að endurupptaka málsmeðferð á fyrri svæðum.

Í umfjöllun um þjóðlendumál er mikilvægt að hafa í huga að Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd en íslenska ríkið gerir kröfur um þjóðlendur fyrir nefndinni. Fjármálaráðherra setur fram kröfulýsingar fyrir hönd íslenska ríkisins. Landeigendur sem telja til eignarréttar á svæðinu setja svo fram kröfulýsingar sínar fyrr Óbyggðanefnd, eftir að kröfur íslenska ríkisins hafa verið kynntar. Óbyggðanefnd sker úr um hvort land teljist háð einkaeignarrétti eða það sé þjóðlenda í eigu ríkisins, þ.e. það hafi í raun verið eigendalaust áður.

Grundvallarhugsun að baki þjóðlendulögum nr. 58/1998 er að til hafi verið landsvæði á Íslandi sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Með nokkurri einföldun hvílir þetta á þeim sjónarmiðum að eigi síðar en við gildistöku Jónsbókar hafi ákvæði laga um almenninga og afrétti útilokað að ný svæði á Íslandi féllu undir einkaeignarrétt með landnámi.

Í eldri löggjöf var engin skylda að „bréfa“ lýsingu á landamerkjum jarða. Slík skylda kom fyrst fram með landamerkjalögum nr. 5 frá 1882. Það er því tilviljun hvort til séu eldri ritaðar heimildir um merki jarða. Nokkur misbrestur var á framfylgd laganna og því voru sett ný landamerkjalög nr. 41/1919. Eftir það voru landamerkjabréf til fyrir flestar jarðir. Niðurstöður í þjóðlendumálum hafa falið í sér að lýsing lands innan landamerkjabréfa er ekki trygging fyrir því að land teljist eignarland.

Við setningu þjóðlendulaga árið 1998 var það örugglega hugmynd flestra, þ.m.t. Alþingismanna, að þjóðlendusvæði væru fyrst og fremst á miðhálendinu. Annað hefur komið í ljós og jafnvel svæði á láglendi og niður að sjó hafa verið úrskurðuð þjóðlendur. Í einhverjum tilfellum hafa svæði talist þjóðlendur sem ekki falla undir landamerkjabréf eða ósamræmi er augljóst, en í mörgum málum hefur niðurstaða ráðist af heildarmati á stöðu lands jafnvel þótt landamerkjabréf lýsi merkjum skilmerkilega. Í því heildarmati er m.a. litið til eldri heimilda en landamerkjabréfa (oft snerta slíkar heimildir aðeins óbeint stöðu eignarréttar) en einnig til þátta eins og gróðurfars, hæð lands yfir sjávarmáli og mögulegrar notkunar.

Gagnrýni á þjóðlendulög – samstöðuleysi í tíma

Mikil gagnrýni hefur komið fram á þjóðlendulögin og framkvæmd þeirra. Sú gagnrýni hefur jafnan verið háværust þar sem þjóðlendukröfur hafa verið til umfjöllunar á hverjum tíma, en aldrei hefur náðst veruleg samstaða mótmæla. Landeigendur á svæðum þar sem málsmeðferð var ekki hafin töldu að málið snerti sig ekki, þar væru aðstæður aðrar og landamerkjabréf áreiðanleg. Til dæmis tóku landeigendur á Norður- og Austurlandi ekki af krafti undir málið þegar fyrstu þjóðlendumál hófust á Suðurlandi.

Eftir að málsmeðferð Óbyggðanefndar er afstaðin, og sumir landeigendur hafa náð að hrinda af sér kröfum ríkisins, hefur kraftur mótmæla þaðan minnkað. Með tímanum hafa jafnræðissjónarmið farið að mæla gegn úrbótum, enda umdeilanlegt að breyta lögunum þegar Óbyggðanefnd hefur þegar lokið umfjöllun um stóran hluta landsins og einstök mál fengið úrlausn dómstóla.

Hefði skapast samstaða um mótmæli á sama tíma hefði mögulega verið unnt að ná fram úrbótum á þjóðlendulögum fljótlega eftir að óvænt áhrif þeirra á stöðu landamerkjabréfa varð ljós.

Ósanngirni þjóðlendulaga – sönnunarbyrði landeigenda.

Stærsti ágalli þjóðlendulaga er sú sönnunarstaða sem eigendur jarða eru settir í. Við setningu þjóðlendulaga var yfirlýst að „almennar sönnunarreglur“ giltu, bæði fyrir Óbyggðanefnd og dómstólum. Inntak þessara sönnunarregla var ekki eins og margir hugðu. Samkvæmt niðurstöðum dómstóla leiða almennar sönnunarreglur til þess að landeigendur þurfa að sanna að land jarða sé háð einkaeignarrétti þeirra. Landamerkjabréf jarðanna eru sönnunargögn um slíkt en þau geta þó verið vefengd á grunni heildmats, sbr. umfjöllun hér framar.

Þær úrbætur hefði átt að gera á þjóðlendulögum að lögfesta sérstaka sönnunarreglu, sem falið hefði í sér að land samkvæmt lýsingu landamerkjabréfa jarða teldist háð einkaeignarrétti, nema íslenska ríkið gæti sannað annað. Ríkið hefði borið sönnunarbyrði ef það vefengdi efni landamerkjabréfs.

Með þessu hefði tilgangi þjóðlendulaga verið þjónað um að eyða óvissu um eignarréttarlega stöðu lands. Ríkið hefði sparað milljarða kostnað af málsmeðferð. Síðast en ekki síst hefði ríkið staðið vel að eignarréttarvernd í anda stjórnarskrárákvæðis þar um. Aldargömul landamerkjabréf teldust þá grundvöllur eignarréttar og niðurstöður mála gætu ekki ráðist af tilviljunum um það hvaða eldri heimildir finnast um jarðir eða ályktunum óstaðkunnugra lögfræðinga um þýðingu hæðarlegu lands, beitarnot og skilning á sjálfsbjörg fyrri kynslóða á grunni eignarréttar lands.

Gagnrýni á kröfur ríkisins

Gagnrýni á þjóðlendumálin hefur oft verið ómarkviss. Ekki gera allir greinarmun niðurstöðum Óbyggðanefndar og því að íslenska ríkið setur fram kröfulýsingar í upphafi málsmeðferðar.

Við málsmeðferð á fyrri svæðum hafa verið nokkrar sveiflur í því hve langt ríkið gengur í kröfulýsingum. Jafnvel eftir að meginsjónarmið urðu skýr samkvæmt úrskurðar- og dómaframkvæmd hefur ríkið stundum sett fram ógrynni kröfulýsinga. Ríkið hefur svo verið gert afturreka með þær að stærstu leyti hjá Óbyggðanefnd. Nefna má að á árinu 2005 gerði ríkið svo til samfellda þjóðlendukröfu í jarðir norðan Jökulsár á Dal frá Brúarjökli og út til Hellisheiðar. Niðurstaða Óbyggðanefndar var að fallast aðeins á þjóðlendukröfu úr hluta lands Brúar. Svipað offar virðist upp á teningnum í kröfulýsingum á Vestfjörðum nýlega, þar sem kröfur voru m.a. gerðar í fjölda smásvæða einkum af tilliti til hæðarlegu yfir sjó.

Það er gagnrýnivert ef kröfulýsingar ríkisins á Austfjarðasvæðinu verða settar fram án þess að gætt sé meðalhófs og stofnað til málareksturs við landeigendur án þess að vafi um eignarrétt lands sé skýr.

Hvers má vænta

Staða landsvæða vegna þjóðlendukrafa er afar fjölbreytileg. Ef litið er til Austfjarðafjallgarðsins og reyndar Austurlands í heild, er mikið um stórar jarðir sem eiga land til fjalls þangað sem „vötnum hallar“, „á fjallseggjar“, eða sambærilegu orðalagi landamerkjabréfa. Þegar þjóðlendumál voru tekin fyrir á norðurhluta Austurlands gekk ríkið hart fram í kröfulýsingum. Ef litið er til niðurstaðna, t.d. vegna jarða sem eiga land að Smjörfjöllum og fjallað var á árinu 2005, má leyfa sér ákveðna bjartsýni þar sem fjallgarðar skipta sveitum.

Það er hins vegar mögulegt að kröfulýsingar ríkisins verði margar og reynt að fara í samskonar loftfimleika og nú nýlega á Vestfjörðum. Kröfulýsingar ríkisins hér eiga að koma fram í janúar.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður hjá Sókn lögmannsstofu


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.