Okkar ábyrgð er mikil

Það var árið 1942, þegar seinni heimsstyrjöldin stóð sem hæst, að umræðan um samstarf á Austurlandi hófst. Það voru tveir Seyðfirðingar sem áttu frumkvæði að samtali við fleiri um áhyggjur sínar af stöðunni í fjórðungnum á þeim tíma og hvernig hún yrði til framtíðar. Úr varð að Fjórðungsþing Austfirðinga var stofnað árið 1943. Tæpum tveimur áratugum síðar var starfsemi Fjórðungsþingsins orðin óvirk þó svo henni væri ekki formlega hætt.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) var stofnað árið 1966. Það var áfram talin þörf á samtali og samstarfi milli sveitarfélaga á Austurlandi og það hefur varla breyst.

Ég sit sem aðalmaður í stjórn SSA. Því miður er það þannig, árið 2018, að ég hef að mörgu leyti sömu áhyggjur af stöðunni hér Austurlandi og Seyðfirðingarnir áðurnefndu höfðu fyrir hartnær 80 árum.

Ríkið kemur ekki færandi hendi. Við þurfum að berjast fyrir öllu sem hér gerist og höfum alltaf þurft þess. Við eigum þennan samstarfsvettvang okkar, SSA og í gegnum hann höfum við reynt að ná saman í ýmsum mikilvægum málum. Við tökumst stundum á og það verða jafnvel heilmikil læti. Það er mannlegt því oft erum við að ræða mikil tilfinninga- og hagsmunamál fyrir hvert sveitarfélag. Vissulega finnast mál sem vart er unnt að ná fullkominni samstöðu um en flest málanna eru þess eðlis að samstaða er möguleg og það styrkir okkar stöðu.

Það er umhugsunarvert að þegar við festumst í átökunum og náum ekki niðurstöðu gefum við ríkinu, alþingismönnum, ráðherrum og embættismönnum fullkomna afsökun fyrir því að setja okkar baráttumál neðst á forgangslistann. Okkur er ekki einu sinni boðið inn í herbergið þar sem ákvörðunin er svo tekin fyrir okkur.

Heilsársvegur um Öxi, þjóðvegur 1 um firði og göng til Seyðisfjarðar eru klassísk þrætuepli innan SSA. Skipaður hefur verið starfshópur á vegum ríkisins sem á að höggva á hnútinn til að finna lausn á samgönguvanda Seyðfirðinga því ekki hefur tekist að ná sátt um þau mál. Það er eðlilegt og við eigum að una þeirri vinnu sem þessi hópur er að vinna því við getum vart komist að sameiginlegri niðurstöðu og talað einum rómi.

Á Austurlandi búa um 3% Íslendinga og þessi þrjú prósent tvístrast svo í fjöldamörg önnur brot. Ef hins vegar 10.000 íbúar Austurlands stæðu hlið við hlið fyrir framan Alþingi og töluðu í takt, þá væru eyrun á ríkinu án efa opnari. Við eigum af þessum ástæðum ávallt að reyna eftir megni að skapa samstöðu um mikilvæg mál fyrir fjórðunginn og SSA er vettvangurinn fyrir umræðu og sameiginlega niðurstöðu. Það er enginn annar sambærilegur vettvangur til.

Í komandi sveitarstjórnarkosningum er mikilvægt að þeir sem kjörnir verða vinni að heilindum til að tryggja hag Austurlands. Við þurfum að hverfa af braut átaka og sundurlyndis og leggja mikið á okkur til að ná samstöðu um mikilvæg málefni sé þess nokkur kostur. Við þurfum á aukinni samstöðu að halda og berjast sem einn maður fyrir Austurland.

Höfundur er oddviti Fjarðalistans, lista félagshyggjufólks í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.