Okkar Austurland

Það eru ekki margir sem setjast reglulega niður í rólegheitum gagngert til þess að velta því fyrir sér með skipulegum hætti hvernig fullkomið Austurland (út frá eigin sjónarhóli) væri, hvað þá að taka fram penna eða tölvu og skrifa málefnalegt bréf til sveitarstjórna um málið. Hins vegar standa flestir sig að því að ranta af geðshræringu í góðra vinna hópi yfir einhverju sem betur mætti/ætti að fara... Hið fyrra er þó heldur líklegra til árangurs en hið síðarnefnda.


Opnir íbúafundir, eins og sá sem SSA boðar til þriðjudaginn 15. mars nk. kl. 17:00 í Valaskjálf á Egilsstöðum, eru til þess gerðir að allir íbúar Austurlands geti komið því á framfæri sem þeim finnst mikilvægt. Þegar óskað er beinlínis eftir aðstoð við að ákveða hvernig okkar samfélag ætti að vera, þá verðum við að grípa tækifærið, enda getum við hvert og eitt haft áhrif á það hvernig okkar Austurland þróast.

Góð þjónusta og þjónustuframboð skiptir okkur öll máli: skólar, heilsugæsla, verslanir o.s.frv. Ofan á þetta leggjast svo fleiri persónulegar þarfir og óskir. Ég legg t.d. mikla áherslu á að það samfélag sem ég bý í hugi að umhverfismálum, sé fordómalaust og að framboð menningarviðburða spanni allan skalann (allt frá þorrablótum til framúrstefnulegra tónleika þar sem spilað er á tannbursta eða annað álíka), að allt sé jafn rétthátt og öllu/m sé gefinn séns.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa alist upp í samfélagi sem átti virk og sterk leikfélög, myndlistarfélag, leirlistarkennara, góðan tónlistarskóla með frábærum tónlistarkennurum og fleira listatengt. Aðrir leggja eflaust meiri áherslu á gott íþróttastarf í sínu samfélagi og enn aðrir eitthvað allt annað. Við vonum auðvitað að sú samfélagssúpa sem við bjóðum upp á sé við flestra hæfi og þar geti flestir fundið það sem veitir þeim lífsfyllingu.

Inn í það framboð sem í boði er á hverjum stað spilar svo auðvitað máttur einstaklingsframtaks og félagasamtaka. Virk félagastarfsemi eins og framfarafélög, náttúruverndarfélög, íþróttafélög, myndlistarfélög, ungmennafélög, leiklistarfélög og önnur félög eru hornsteinar sem gera það að verkum að samfélag helst lifandi. Því fjölbreyttara sem framboðið er á Austurlandi því fjölbreyttari einstaklingar koma til með að búa, starfa og vaxa upp hér.

Verum því virk, bæði með því að svara þegar kallað er eftir aðstoð okkar við að móta samfélagið Austurland og með því að taka virkan þátt í að stuðla að því að það sem okkur skipti máli, sé í boði.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur á þriðjudag, 15. mars, fyrir opnum íbúafundi um framtíð Austurlands í tengslum við endurskoðun sóknaráætlun fjórðungsins. Fundurinn ber yfirskriftina „Austurlandið mitt“ og verður í Valaskjálf, Egilsstöðum klukkan 17:00-20:00.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.