Opið bréf til samgöngunefndar SSA: Þjóðvegur 1 um Suð-Austurland.
Um langa hríð hefur þjóðvegur 1 um Austurland legið um Breiðdalsheiði til Héraðs og þaðan Norður. Hann hefur því í raun aldrei náð til strandbyggðanna á Mið-Austurlandi. Síðustu 10 árin - allt frá því Fáskrúðsfjarðargöng voru opnuð - hefur þjóðleiðin um Austurland hins vegar legið um Suðurfirði til Reyðarfjarðar og um Fagradal til Héraðs. Það liggur því í augum uppi að með opnun ganganna átti strax að færa Þjóðveg 1 til samræmis. Um þetta eru flestir Austfirðingar sammála enda er umferð um Breiðdalsheiði sáralítil.
Veturinn 2013-2014 var Breiðdalsheiði lokuð í 123 daga. Heiðin var lokuð frá 8. des. 2013 til 9. apríl 2014. Árið 2014 var meðal vetrarumferð (VDA) um heiðina einn (1) bíll á dag og meðal ársumferð (ÁDA) aðeins 41 bíll á dag. Breiðdalsheiði er sem sagt lokuð á veturna og sumarumferð er sáralítil. Á sama tíma er Suðurfjarðaleið nánast alltaf opin og vetrarumferð er rúmlega 200 bílar á dag.
Ferðaiðnaðurinn er vaxtarbroddur atvinnulífs á Austurlandi. Nánast allt gistirými er fullbókað yfir sumarmánuðina og mikið álag á alla þjónustu. Mjög fáir ferðamenn koma hins vegar yfir vetrartímann og höfuðviðfangsefni ferðaþjónustunnar er að auka vetrarviðskiptin. Bættar vetrarsamgöngur eru þar lykilatriði.
Við hjónin rekum litla gistiþjónustu á Seyðisfirði. Sumarið er þegar nánast fullbókað en nýting yfir vetrarmánuðina er 10 – 20%. Vetrargestir spyrja mikið um færð og margir eru hræddir, bæði vegna slæmra akstursskilyrða og hættu á að ferðaáætlun raskist vegna ófærðar. Sá ótti er ekki ástæðulaus.
Til að auka ferðaöryggið velja ferðamenn auðvitað að ferðast sem mest um þjóðveg 1. Þannig telja þeir sig fara öruggustu leiðina. Því fer víðs fjarri að svo sé á Austurlandi.
Bæði á mánudag og sunnudag þurftum við að bíða fram á nótt eftir gestum sem ætluðu til öryggis að fara Þjóðveg 1 um Breiðdalsheiði. Heiðin var lokuð og gestirnir komu dauðþreyttir og nánast skelkaðir til Seyðisfjarðar. Þó svo þetta sé aðeins annað starfsár fyrirtækis okkar hafa tugir gesta okkar lent í erfiðleikum við Breiðdalsheiði á sama tíma og færð var ágæt um firðina og yfir Fjarðarheiði!
Þegar þessir gestir koma heim þá munu þeir ekki ráðleggja væntanlegum Íslandsförum að fara austur á land yfir vetrartímann. Þetta er auðvitað til háborinnar skammar og veldur ferðaiðnaði á Austurlandi miklum skaða.
Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna Þjóðvegur 1 liggur enn um Breiðdalsheiði. Hér áður fyrr voru rökin þau að Þjóðvegur 1 eigi að vera stysta leið gegnum fjórðunginn. Það eru ekki rök lengur því með Breiðdalsbrúnni og Fáskrúðsfjarðargöngum er strandleiðin ekki lengri. Ég spyr því:
Hver er á móti því að Þjóðvegur 1 sé færður?
Hvaða rök eru fyrir því að Þjóðvegur 1 sé um Breiðdalsheiði
Hver tekur ákvörðun um að færa Þjóðveg 1?
Hvað geta sveitarfélög á Austurlandi gert til að fá þjóðveg 1 fluttan?
Er ekki hægt að ljúka þessu máli fyrir næsta vetur?
Svör við spurningunum óskast birt á opinberum austfirskum vettvangi.
Höfundur býr á Seyðisfirði